kafli10

Tölvur og gemsar

Íslendingar eru fremur nýjungagjarnir. Þeir eru áhugasamir um nýja strauma og stefnur erlendis frá og fljótir að tileinka sér nýjungar. Þetta kemur t.d. fram í því að tölvueign er mjög almenn í landinu. Um  95% íslenskra heimila hafa Internet tengingu og nánast allir Íslendingar hafa aðgang að Netinu (Veraldarvefnum) ýmist á heimili, í vinnu eða í skóla.
    Farsímar eru í daglegu tali stundum nefndir gemsar en það er íslenska orðið fyrir GSM síma. Orðið er gamalt í íslensku og merkir gemlingur sem er veturgömul kind! Það eru þó fyrst og fremst hljóðtengsl orðsins við skammstöfunina GSM sem hafa orðið þess valdandi að orðið gemsi er gjarnan notað um þessa tegund síma.  Íslendingar eiga líklegast flesta farsíma í heiminum miðað við höfðatölu. 
   Upp á síðkastið hafa snjallsímar og spjaldtölvur notið vaxandi vinsælda sem og lesbretti (Kindle) og einhverjar íslenskar bækur eru nú aðgengilegar á rafrænu formi.