kafli1


Örar þjóðfélagsbreytingar, breyttir atvinnuhættir

Íslendingar voru meðal fátækustu þjóða heims á seinni hluta 19. aldar. Landbúnaður var aðalatvinnuvegurinn frá landnámi og fram á 20. öld. Hann er, eins og gefur að skilja, viðkvæmur fyrir sveiflum í náttúrunni og hart árferði af völdum kulda eða náttúruhamfara hafði því oft hungursneyðir í för með sér.
    Allur þorri fólks bjó í sveitum og bóndabærinn var hornsteinn samfélagsins. Með iðnvæðingu urðu fyrst breytingar á íslenskum samfélagsháttum, þegar vélvæðing fiskiskipaflotans hófst og farið var að flytja inn togara í byrjun aldarinnar. Þessu fylgdu breytingar á atvinnuháttum og búsetu. Fólk flutti úr sveitum í þorp til að stunda margvísleg störf tengd útvegi, en áður hafði vinna við fisk verið árstíðabundin.
    Enn frekari breytingar urðu í atvinnu - og byggðaþróun með seinni heimsstyrjöldinni. Það má með sanni segja að hún hafi markað upphaf nútímavæðingar á Íslandi vegna þeirra miklu efnahagsbreytinga sem hersetan hafði í för með sér.
    Landið var hernumið af Bretum 1940 og Ameríkanar tóku svo við af þeim 1941. Hersetan hafði mikla efnahagslega þýðingu fyrir þjóðina. Vegir voru lagðir, flugvellir byggðir o.s.frv., og margvíslega þjónustu þurfti að inna af hendi við herliðið. Það varð, með öðrum orðum, mikil eftirspurn eftir vinnuafli og fjöldi Íslendinga fékk nú vinnu og hana vel launaða. Auk þessa hækkaði fiskverð vegna aukinnar eftirspurnar á erlendum markaði. Allt stuðlaði þetta að hagsæld þjóðarinnar þótt kaldhæðnislegt sé.
    Þessar breyttu aðstæður höfðu áhrif á alla félagsgerð hins íslenska samfélags og fólksflutningar utan af landi til Reykjavíkur urðu meiri en nokkru sinni. Dreifbýlissamfélagið breyttist á skömmum tíma í borgarsamfélag og flestir Íslendingar búa nú í þéttbýli.
    Nú starfa aðeins tæp 3% þjóðarinnar að landbúnaði en árið 1860 lifðu um 83% þjóðarinnar á landbúnaði. Helsta grein hans er kvikfjárrækt. Nýjar búgreinar hafa komið fram á undanförnum árum, eins og loðdýrarækt, fiskeldi og ræktun nytjaskóga. Handverk og smáiðnaður var stundaður hér fram á tuttugustu öld en með vélvæðingu jókst atvinnuþátttaka í iðnaði verulega. Flestir starfa í matvælaiðnaði, byggingariðnaði og stóriðju, auk þess sem fjöldi manna starfa hjá hugbúnaðarfyrirtækjum, í lyfjaiðnaði og við ferðaþjónustu. Reynt hefur verið að stuðla að fjölbreyttari atvinnuháttum, meðal annars með aukinni stóriðju sem hart er deilt um.
    Sjórinn er ein dýrmætasta auðlind Íslendinga og fiskafurðir eru ein mikilvægasta útflutningsvara þjóðarinnar. Íslenska hagkerfið er því mjög háð sjávarútvegi, enda skapa sjávarafurðir um 40% allra útflutningstekna þjóðarinnar. Það er því óhætt að segja að fiskimiðin umhverfis landið hafi verið sú undirstaða góðra lífskjara þjóðarinnar sem skipað hefur Íslendingum í raðir tekjuhæstu þjóða heims. Hvort menn eru svo sammála um nýtingu auðlindarinnar og aðganginn að henni er annað mál.