kafli1

Flokkakerfi

Flokkakerfið sem nú er við lýði á Íslandi mótaðist á fyrri helmingi tuttugustu aldarinnar en hefur verið í nokkurri þróun síðustu árin. Einn stærri flokkanna er Sjálfstæðisflokkur sem hefur haft frá 24% og allt að 40% fylgi. Sjálfstæðisflokkurinn er hægriflokkur sem leggur áherslu á frelsi einstaklingsins og frjálslyndi. Þrír aðrir flokkar voru lengi starfandi og lá fylgi þeirra á bilinu 10-25%. Þetta voru Framsóknarflokkurinn, miðjuflokkur sem átti mikinn stuðning meðal bænda og íbúa landsbyggðarinnar, Alþýðubandalagið, sósíalistaflokkur, og Alþýðuflokkurinn, sósíaldemókrataflokkur.
    Á árunum 1983-1999 starfaði auk þessara flokka, Kvennalistinn, sem hafði bætta stöðu kvenna að meginmarkmiði. Árið 1999 sameinuðust Alþýðuflokkur, Kvennalisti og hluti Alþýðubandalagsins í kosningabandalagi og mynda nú sameiginlegt stjórnmálaafl; Samfylkinguna. Sama ár var stofnaður nýr stjórnmálaflokkur vinstra megin við hið nýja bandalag; Vinstri hreyfingin grænt framboð, sem leggur áherslu á hefðbundna vinstri pólitík og umhverfisstefnu. 
Í Alþingiskosningunum 2009 buðu 7 flokkar sig fram. Af þeim fjóru stærstu hlaut Samfylkingin 29,8% atkvæða og Vinstri hreyfingin grænt framboð (Vinstri Grænir) 21,7% fylgi og mynduðu saman ríkisstjórn. Sjálfstæðisflokkurinn hlaut 23.7% atkvæða og Framsóknarflokkurinn 14,8%. 

15 flokkar buðu fram í Alþingiskosningunum 2013. Framsóknarflokkurinn vann sigur í kosningunum með 24,4% atkvæða og myndaði ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki sem hlaut 26,7% atkvæða. Samfylkingin tapaði nokkru fylgi og hlaut aðeins 12,9% atkvæða sem og Vinstri-Grænir sem fengu 10,9% fylgi. Tveir nýir stjórnmálaflokkar náðu manni inn á þing, Björt framtíð fékk 8,2% atkvæða og sex þingmenn og Píratar 5,1% atkvæða og þrjá þingmenn. Aðrir flokkar fengu mun minna fylgi. 

Eftir fjölmenn mótmæli almennings við sitjandi ríkisstjórn í apríl 2016 var Alþingiskosningum sem vera áttu vorið 2017 flýtt um hálft ár. 12 flokkar buðu sig fram í kosningunum í október 2016. Sjálfstæðisflokkurinn hlaut 29% atkvæða, Vinstri Grænir 15,9% og Framsóknarflokkurinn 11,5%, Samfylkingin tapaði miklu fylgi og hlaut aðeins 5,7% atkvæða. Tveir nýlegir flokkar hlutu góða kosningu, Píratar fengu 15,5% atkvæða og Viðreisn 10,5%, Björt framtíð fékk síðan 7,2%. Aðrir flokkar náðu ekki manni inn á þing. Í janúar 2017 myndaði Sjálfstæðisflokkur ríkisstjórn með Viðreisn og Bjartri framtíð.  

Alþingi