kafli7


Heilbrigðismál

Á síðari hluta 19. aldar og alla 20. öldina lengdist meðalævi Íslendinga til mikilla muna. Um miðja 19. öld var meðalævi íslenskra karla aðeins um 32 ár og kvenna um 38 ár. Um miðja 20. öld voru tölurnar komnar í 71 og 75 ár og árið 2015 var meðalævi karla 81 ár og kvenna 83,6 ár. Stórstígar framfarir í heilsugæslumálum ásamt bættum aðbúnaði, tryggari afkomu og bættu mataræði eru samverkandi þættir sem stuðluðu að þessari miklu breytingu.
    Áhersla er lögð á að tryggja aðgang alls almennings að heilbrigðisþjónustu án tillits til efna og aðstæðna einstaklinga og fjölskyldna. Almannatryggingar eru hugsaðar sem öryggisnet er tryggi öllum þennan aðgang.
    Heilbrigðiskerfið er dýrt og kostnaður við það hefur verið vaxandi á undanförnum áratugum. Hækkandi meðalaldur þjóðarinnar veldur þessu, auk stöðugt fullkomnari og dýrari tækja til sjúkdómsgreininga og lækninga. Þá eru sífellt að koma á markað ný, betri og dýrari lyf.
    Mikil umræða hefur farið fram á Íslandi, um aukinn kostnað sjúklinga í heilbrigðiskerfinu. Ekki fara alltaf saman hugmyndir og aðgerðir stjórnvalda í þeim efnum og skoðanir þeirra sem starfa á vettvangi og þeirra sem sækja þjónustuna. Mikið er talað um sparnað og aðhaldsaðgerðir stjórnvalda eru gagnrýndar. Þó er heilbrigðisþjónusta á Íslandi með því sem best gerist í heiminum. Sjúkrahúsin eru búin vel menntuðu starfsliði og öllum er tryggður aðgangur að læknisþjónustu.