kafli5
Stofnun Alþingis

Íslendingar sóttu hugmyndir sínar um réttarfar til Noregs og héldu þing að norskri fyrirmynd. Þing víkinga í Noregi voru sameiningartákn landshluta, en árið 930 var stofnað á Íslandi fyrsta alþingi í heimi, þ.e. eitt þing fyrir alla þjóðina. Þegar þessi atburður gerðist voru samankomnir á Þingvöllum fulltrúar úr öllum landshlutum. Þeir settu sér allsherjarlög og komu á fót stofnun sem ein gat breytt þessum lögum; Alþingi. Þess eru ekki önnur dæmi á miðöldum að hliðstæðu ríki hafi verið komið á fót. Ríki þeirra tíma voru konungsríki.
    Fundir Alþingis voru haldnir á hverju sumri og þangað flykktist fólk hvaðanæva að af landinu til nokkurs konar þjóðhátíðar, þar sem auk löggjafarstarfsins voru stundaðar alls kyns skemmtanir og viðskipti.
    Þótt Alþingi starfaði einungis tvær vikur á ári var það mjög mikilvæg stofnun. Þar voru sett lög og gerð nýmæli. Þar voru einnig fjórir dómastólar, einn fyrir hvern fjórðung. Fimmtardómi var snemma bætt við en hann var nokkurs konar hæstiréttur.
    Í fyrstu voru lögin varðveitt í minni fáeinna manna. Sérstakur lögsögumaður hafði það hlutverk að segja upp lögin á Lögbergi, einn þriðjung ár hvert. Eftir að ritmenning var innleidd voru lög hið fyrsta sem fært var í letur á Íslandi. Þessi lög eru nefnd Hafliðaskrá og voru rituð veturinn 1117 - 1118. Þau eru jafnan talin marka upphaf ritmenningar á Íslandi. Hafliðaskrá er glötuð en lög þjóðveldisins fengu síðar nafnið Grágás og eru varðveitt í fornum handritum.
    Það ríki sem stofnað var með Alþingi árið 930 varaði í rúm 330 ár, eða þar til Íslendingar gengust Noregskonungi á hönd eftir harðvítuga valdabaráttu innlendra höfðingjaætta.
    Eftir að Noregur komst undir danska stjórn 1380 komst Ísland í konungssamband við Danmörku sem stóð allt til ársins 1944.