kafli5

Saga íslenskunnar

Þegar Ísland byggðist (á 9. öld) var sá hluti Norðurlanda sem nefnist Skandinavía eitt málsvæði. Tungumál þeirra þjóða sem þar byggðu voru oft nefnd dönsk tunga einu nafni. Þau greindust smám saman í mállýskur og munurinn á þeim jókst. Nú er talað um norræn mál, sem eru norska, íslenska, færeyska, danska og sænska, og þau tilheyra þeirri grein indóevrópskra mála sem kallast germönsk mál.
    Fyrstu aldirnar í landinu er tæplega hægt að tala um íslensku sem sérstakt mál, þar sem mjög lítill munur var á henni og því máli sem norrænir menn töluðu í Noregi og öðrum byggðum norrænna manna. Elstu íslensku ritheimildirnar, frá 12. öld, gefa til kynna að mjög lítill munur hafi þá verið á íslensku og norsku. Sá munur átti eftir að aukast á 13. og 14. öld, einkum vegna einföldunar í beygingakerfi norsku.
    En breytingar hafa líka átt sér stað í íslensku. Hljóðkerfið hefur tekið töluverðum breytingum og beygingakerfið nokkrum minni háttar breytingum, þó svo að hið fornnorræna beygingakerfi hafi varðveist í íslensku í öllum meginatriðum. En það er orðaforði íslenskunnar sem mestum breytingum hefur tekið. Þær breytingar hafa einkum orðið vegna breyttra atvinnuhátta á þessari öld en erlend áhrif hafa einnig valdið þar nokkru um.

Málshættir og Orðtök   
Flest orðtök eiga uppruna sinn í gömlum atvinnuháttum, siðum, leikjum og venjum. Þau geta verið ungu fólki, sem ekki þekkir til aðstæðna í gamla bændasamfélaginu, framandi en óneitanlega auka þau blæbrigði málsins. Mörg þeirra bregða upp skemmtilegum myndum af athöfnum fólks áður fyrr.

Að sigla milli skers og báru: Reyna að koma sér vel við báða deiluaðila, fara gætilega í samskiptum við fólk. Í orðtakinu merkir bára brotsjór. Menn þurftu að varast að steyta ekki á skeri og forðast brotsjói. Þess vegna fara menn gætilega er þeir sigla milli skers og báru.
Dísa sigldi milli skers og báru þegar hún tók ekki afstöðu í deilumáli vinstúlkna sinna.

Að leiða saman hesta sína: Kappræða, deila eða berjast. Hestaat var vinsæl íþrótt til forna. Þá öttu menn saman graðhestum sínum sér og áhorfendum til skemmtunar. Þetta varð jafnan harður bardagi.
Nemendur leiddu saman hesta sína á málfundi um náttúruvernd.

Að tefla í tvísýnu: Taka áhættu. Menn tefla í tvísýnu þegar þeir leika vafasömum leik í skák, en geta unnið ef andstæðingurinn uggir ekki að sér.
Menn tefla í tvísýnu er þeir fara illa búnir á fjöll í slæmu veðri.