kafli1

Öryggi og landvarnir
Enginn eigin her

Íslendingar höfðu aldrei haft eigin her og aldrei borið vopn á aðra þegar heimsstyrjöldin síðari braust út og þeir drógust inn í hringiðu styrjaldarinnar. Hinn 10. maí 1940 hernámu Bretar Ísland, aðeins mánuði eftir að Þjóðverjar hernámu Noreg og Danmörku. Hernaðarmikilvægi Íslands var augljóst því þaðan mátti stjórna mikilvægum siglingaleiðum milli Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku.
    Hernáminu var mótmælt af ríkisstjórn landsins, enda hafði Ísland lýst yfir hlutleysi sínu. Hins vegar var mikill og almennur stuðningur við málstað bandamanna í stríðinu og almennur skilningur á þeirri hernaðarnauðsyn sem að baki hernáminu lá.
    Bandarískur her leysti þann breska af hólmi 1941 eftir að samið var við þá um hervernd. Í samningnum var kveðið svo á að herliðið skyldi hverfa á brott í styrjaldarlok. Bandaríkjamenn stóðu þó ekki við þann hluta samningsins heldur fóru þess á leit við Íslendinga að þeir fengju afnot af þremur herstöðvum á landinu til allt að 99 ára. Einhugur var um að hafna þessari beiðni Bandaríkjamanna en samið um að flugher Bandaríkjanna hefði afnot af flugvellinum í Keflavík.
    Miklar deilur urðu um þennan samning. Fylgjendur hans töldu að heimsstyrjöldin hefði leitt í ljós ótvírætt hernaðarmikilvægi landsins og Íslendingar gætu þess vegna ekki staðið hjá þegar nýju valdajafnvægi yrði komið á í heiminum. Andstaða var mikil gegn samningnum bæði á Alþingi og meðal almennings. Margir andstæðingar voru hlutleysissinnar sem óttuðust um framtíð jafn fámennrar þjóðar og Íslendinga ef tengsl þeirra við Bandaríkin yrðu jafn náin og þau hlytu að verða ef um einhvers konar hernaðarsamvinnu yrði að ræða til frambúðar. Þeir sem aðhylltust kommúnisma vildu ekki styðja Bandaríkin sem þeir töldu helsta andstæðing vinstri stefnu. En þrátt fyrir þessar fyrstu hatrömmu deilur um utanríkismál á Íslandi var samningurinn samþykktur á Alþingi.