kafli3

3. Umhverfi og landafræði

   

Ár og vötn
Ár á Íslandi eru fjölmargar. Annars vegar eru jökulár með gruggugu vatni sem eiga upptök sín í jöklum. Hins vegar bergvatnsár með tæru vatni. Árnar eru fremur vatnsmiklar vegna mikillar úrkomu á landinu.
    Laxveiðar eru vinsælt sport í íslenskum ám. Þær eru dýrt sport og einkum stundaðar af ríkum útlendingum. Gætir nokkurrar óánægju meðal íslenskra sportveiðimanna vegna hins háa verðlags á veiðileyfum.

 
Soðinn lax í kryddsósu

Einkennandi fyrir íslenskt landslag eru hinir fjölmörgu fossar landsins. Þekktastur þeirra er Dettifoss (44 m), sem er talinn kraftmesti foss Evrópu. Aðrir þekktir fossar eru Gullfoss (32 m), og Skógafoss (60 m). 
    Mörg vötn eru á Íslandi en flest þeirra eru lítil. Stærsta stöðuvatnið er Þingvallavatn í Árnessýslu (84 km2). Það myndaðist við misgengi jarðlaga og liggur í miklum sigdal. Tvær eyjar eru á vatninu, Sandey og Nesjaey. Mikil sumarbústaðabyggð er við vatnið.
    Mývatn í Suður-Þingeyjarsýslu á Norðurlandi er þekkt um allan heim fyrir stórkostlegt landslag og auðugt fuglalíf, m.a. er þar eitt mesta andavarp í heimi. Þar verpa allar íslenskar andategundir, þeirra á meðal húsönd en hún verpir hvergi annars staðar í Evrópu. Hraun umlykur vatnið á alla vegu og eru strendur þess mjög vogskornar. Mikil veiði er í Mývatni og lífríki þess afar fjölskrúðugt.