kafli5

Sjálfstæðisbaráttan á 19. öld

Á fyrri hluta 19. aldar fór þjóðerniskennd að vakna með Íslendingum í kjölfar stjórnmálahræringa suður í Evrópu. Aukinn áhugi á íslensku máli og fornbókmenntum varð til að glæða þjóðerniskenndina enn frekar og Íslendingar hófu að berjast fyrir endurreisn Alþingis og sjálfstæði þjóðarinnar.
    Skáld tóku virkan þátt í sjálfstæðisbaráttunni og eru mörg þekktustu þjóðskáld Íslendinga frá þeim tíma. Má þar helstan nefna Jónas Hallgrímsson, eitt ástsælasta skáld íslensku þjóðarinnar.
    Mikilvægt skref í átt til sjálfstæðis var stigið er Íslendingar fengu stjórnarskrá árið 1874. Af því tilefni var efnt til fyrstu þjóðhátíðar á Íslandi. Hátíðin var haldin á Þingvöllum í ágúst það ár og voru þar saman komnar þúsundir manna til að fagna þessum merkilegu tímamótum í sögu þjóðarinnar.
    Í kjölfar stjórnarskrárréttindanna jukust áhrif Alþingis smám saman með því að það öðlaðist löggjafarvald og fjárveitingavald.
    Næsta skref var heimastjórn, en hana fengu Íslendingar árið 1904. Heimastjórn fól það í sér að þjóðin fékk ráðherra búsettan á Íslandi. Fyrsti íslenski ráðherrann var Hannes Hafstein sem auk þess að vera stjórnmálamaður var þekkt ljóðskáld.
    Árið 1918 er merkilegt í sögu Íslands fyrir þá sök að þá öðlaðist þjóðin fullveldi. Með því varð Ísland fullvalda ríki en stóð þó í konungssambandi við Danmörku. Áfram var barist og árið 1944 var efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu um sambandsmálið, 97,86% kosningabærra manna greiddu atkvæði um málið og 97,36% greiddu atkvæði með niðurfellingu sambandslaganna.
    Lýðveldi var stofnað í kjölfar þessa á Þingvelli við Öxará þann 17. júní 1944. Með því að velja þá dagsetningu heiðruðu Íslendingar helstu þjóðfrelsishetju sína á 19. öldinni; Jón Sigurðsson (1811 - 1879) en 17. júní er fæðingardagur hans. Fyrsti forseti hins nýja lýðveldis var Sveinn Björnsson (1881 - 1952).
    Þannig lauk langri og strangri baráttu íslensku þjóðarinnar á farsælan hátt.


Ísland farsælda frón eftir Jónas Hallgrímsson.