kafli11

Menning og listir

Bókmenning hefur verið ríkjandi í íslensku menningarlífi frá upphafi ritaldar en aðrar listgreinar eru fremur ungar. Frá fornu fari höfðu íslenskar konur stundað listvefnað og listsaum og skapað mörg listaverk í ábreiður og teppi og íslenskir karlmenn skáru í tré og bein og lögðu stund á silfursmíði. En það er ekki fyrr en á tuttugustu öld sem allar listgreinar fara að blómstra, sérstaklega myndlist.
    Myndlist kom fyrst fram á sjónarsviðið fyrir alvöru um aldamótin 1900 er íslenskir listamenn héldu út í heim til að nema þessa listgrein. Íslensk myndlist hefur fylgt meginstraumum beggja vegna Atlantshafsins en um leið þróað þjóðleg einkenni.
    Mikill vaxtarbroddur er einnig innan annarra listgreina, s.s. leiklistar, höggmyndalistar, kvikmyndagerðar og tónlistar. Leikfélag Reykjavíkur hefur starfað frá 1897. Það hafði aðsetur í Iðnó þar til það flutti í Borgarleikhúsið 1989. Hið íslenska ríkisleikhús, Þjóðleikhúsið, var vígt 1950. Tónlistarskóli var stofnaður 1930 og 1950 hóf Sinfóníuhljómsveit Íslands starfsemi sína í samstarfi við Ríkisútvarpið og Þjóðleikhúsið. Íslenski dansflokkurinn, Óperan og fjöldi minni hópa setur svip sinn á menningarlífið.
    Þá er mjög blómlegt menningarlíf meðal áhugafólks áberandi á Íslandi. Áhugaleikhópar starfa um allt land, sömuleiðis alls kyns kórar og sönghópar.