kafli3


3. Umhverfi og landafræði


Eitt virkasta eldfjallaland heims
„ Að undanförnu hefur staðið yfir umbrotahrina í Mýrdalsjökli og segja vísindamenn að greinilega sé um aukna jarðhitavirkni að ræða undir jöklinum og telja víst að eldgos sé á næsta leiti.“
    Fréttir á borð við þessa eru næsta algengar í íslenskum fjölmiðlum, enda hefur landið nær allt myndast við jarðelda og hafa orðið gos að meðaltali á fimm ára fresti á sögulegum tíma á Íslandi. Virkar eldstöðvar skipta hundruðum.
    Ísland er meðal virkustu eldfjallalanda heims og hafa eldgos tíðum valdið miklu tjóni í byggðum og á gróðurlendi landsins á sögulegum tíma. Mikið tjón varð 1973 þegar gaus í Heimaey í Vestmannaeyjum með þeim afleiðingum að fjórðungur bæjarins lagðist í eyði og atvinnurekstur stöðvaðist í nær heilt ár.
    Af fjölmörgum eldstöðvum landsins er Hekla í Rangárvallasýslu þekktust. Á miðöldum stóð mönnum stuggur af henni því hún var talin vera dyr helvítis. Hekla gýs bæði gjósku og hrauni og hefur gjóskan valdið miklu tjóni á gróðri í aldanna rás. Talið er að Hekla hafi gosið um 20 sinnum eftir landnám, fyrst 1104 en það gos lagði Þjórsárdal í eyði. Á 20. öld gaus þetta virka eldfjall sex sinnum. Hekla gaust síðast árið 2000.Geysir
Geysir er óvirkur goshver á miklu jarðhitasvæði í Haukadal í Árnessýslu. Gos í honum gátu náð 70 - 80 metra hæð og stóðu lengst í um 10 mínútur. Hverinn og nágrenni hans eru friðlýst.
    Talað er um að ef vatnsborð Geysis yrði lækkað um hálfan metra gæti hann gosið einu sinni til tvisvar á sólarhring. Yrði það lækkað um tvo metra gæti hann gosið á hálftíma til klukkutíma fresti, átta til tíu metra í loft upp.
    Vísindamenn telja brýnt að gera frekari rannsóknir á hverasvæðinu áður en teknar eru ákvarðanir um hugsanleg inngrip.
    Hið alþjóðlega hugtak geysir er dregið af nafni hans.Ekki bara kaldur klaki
Ísinn er óaðskiljanlegur hluti norðurslóða, hvort sem er á sjó eða landi. Jöklar þekja álíka mikinn hluta lands og hraun þau sem runnið hafa eftir að ísöld lauk, eða um 11% af flatarmáli þess. Stærsti jökull landsins, og jafnframt Evrópu, er  Vatnajökull. Talið er að undir honum nokkur megineldstöðvakerfi. 
    Aðrir stórir jöklar eru Hofsjökull og Langjökull á hálendi Íslands. Þekktur er einnig Snæfellsjökull yst á Snæfellsnesi og eru hlíðar hans að mestu þaktar hrauni frá nútíma.
    Í augum landsmanna eru jöklarnir ekki bara kaldur klaki heldur eru þeir sveipaðir nokkrum ævintýraljóma, sem m.a. kemur fram í því að margar þjóðsögur hafa spunnist um þá bæði fyrr og nú.
    Snæfellsjökull hefur verið vinsælt umfjöllunarefni rithöfunda. Kunn er skáldsaga franska vísindaskáldsagnahöfundarins Jules Verne; Le Voyage au centre de la terre, frá 1864, sem kom út í íslenskri þýðingu 1944 undir heitinu Leyndardómar Snæfellsjökuls. Hún fjallar um ævintýraför inn í jökulinn.
    Bárðar saga Snæfellsáss er Íslendingasaga í nokkrum ýkjustíl. Hún segir frá Bárði sem er bergbúaættar. Hann flýr Noreg og sest að undir Snæfellsjökli. Hann gengur að lokum í jökulinn og gerist landvættur.

Nóbelsskáldið Halldór Kiljan Laxness skrifaði Kristnihald undir jökli 1968 sem Guðný Halldórsdóttir kvikmyndaði en kvikmyndagerðarmenn hafa einmitt tekið jökulinn í sína þjónustu og ljósmyndarar og auglýsingagerðarfólk leggja gjarnan leið sína á jökulinn og í aðrar perlur íslenskrar náttúru.
    Vinsælt er einnig að fara í fjalla - og jöklaferðir á sérútbúnum bílum og njóta kyrrðar og fegurðar í faðmi fjallanna.

Vatnajökull
Vatnajökull er á suðaustanverðu Íslandi. Hann er 2010 m á hæð þar sem hann er hæstur. Jökullinn er stærsti jökull landsins og Evrópu og eitt stærsta jökulhvel jarðar, utan heimskautalanda. Í Öræfajökli, sem gengur suður úr Vatnajökli, er hæsti tindur Íslands; Hvannadalshnúkur, 2110 m á hæð.
    Talið er að nokkur eldstöðvakerfi liggi undir Vatnajökli og miklar öskjur hafa fundist undir Bárðarbungu, í Kverkfjöllum og Grímsvötnum. Árið 1996 varð gos tíu km sunnar í jöklinum. Orsakaði það gífurlegt flóð sem olli miklu tjóni á vegum og brúm á svæðinu. Eldgos braust út í desember 1998 og stóð það í tíu daga. Gosstrókurinn sást vel frá Reykjavík sem er í um 200 km fjarlægð frá jöklinum. Í nóvember 2004 varð síðan lítið gos í Grímsvötnum sem stóð í fimm daga og þann 21. maí 2011 hófst nokkurra sólarhringa gos með miklu öskufalli. Síðasta gos í Vatnajökli hófst þann 16. ágúst 2014 og nokkrum dögum síðar hófst gos norður af jöklinum, í Holuhrauni. Vísindamenn lýstu yfir goslokum um hálfu ári síðar, þann 28. febrúar 2015 og náði hraunflæmið úr gosinu yfir 85km2.
    Allmargir skriðjöklar skríða fram úr jaðri jökulsins og er náttúran á svæðinu kringum hann rómuð fyrir hrikaleik sinn og einstaka fegurð.

Gos í Eyjafjallajökli

Stuttu fyrir miðnætti þann 20. mars 2010 hófst eldgos í Eyjafjallajökli þegar kvika kom upp í Fimmvörðuhálsi. Gosið olli afar litlu eignatjóni en hraunrennslið hafði töluverð áhrif á landslag Þórsmerkur. Gosinu lauk formlega þann 13. apríl 2010 en sólarhring síðar hófst kröftugt sprengigos í Eyjafjallajökli. Einhver eyðilegging varð á bæjum í nágrenni jökulsins en öskufall var gríðarlega mikið. Gífurlegt fjárhagstjón varð vegna röskunar á flugi um alla Evrópu og vakti eldgosið því mikla athygli um allan heim. Í lok maí minnkaði gosvirknin mjög en talsvert öskufok olli óþægindum víða um land allt fram á haustið 2010.
Tengsl hafa verið á milli eldgosa í Eyjafjallajökli og Kötlugosa og því er ekki ólíklegt að Kötlugos hefjist einhverntímann á næstu árum.