kafli2
 

Reykjavík og nágrenni

Suðvesturhorn Íslands er þéttbýlasti hluti þess og þar er höfuðborgin Reykjavík, norðlægasta höfuðborg jarðar. Reykjavík stendur við suðaustanverðan Faxaflóa. Veðurfar í Reykjavík er milt og þar er fremur lítill munur sumars og vetrar miðað við ýmsa aðra landshluta. Þar er einnig fremur votviðrasamt og rignir um 200 daga á ári.
    Upphaf byggðar í Reykjavík er rakið til þess er fyrsti landnámsmaðurinn, Ingólfur Arnarson, settist þar að. Um það segir svo í Landnámabók sem er talin frá fyrri hluta 12. aldar og elsta heimild um landnám Íslands:

Þá er Ingólfur sá Ísland, skaut hann fyrir borð öndvegissúlum sínum til heilla; hann mælti svo fyrir, að hann skyldi þar byggja, er súlurnar kæmu á land.

Hann sendi þræla sína að leita súlnanna, tók sér búsetu þar sem þær fundust og nefndi staðinn Reykjavík. Fornleifarannsóknir á þeim stað sem hann er sagður hafa reist bæ sinn styðja þá hefðbundnu skoðun að þar hafi búið fyrstu íbúar Reykjavíkur.
    Um miðja 18. öld hófst skipuleg uppbygging þéttbýlis í Reykjavík. Bærinn öðlaðist kaupstaðarréttindi 1786, þá voru íbúar hans 167. Í upphafi 20. aldar voru þeir 5000 en nú er Reykjavík langstærsti þéttbýlisstaður landsins með um 120.000 íbúa og yfir 60% þjóðarinnar býr á höfuðborgarsvæðinu öllu.
    Kópavogur, sem byggðist eftir seinna stríð, er nánast samvaxinn Reykjavík og samhangandi byggð er í gegnum Garðabæ yfir í Hafnarfjörð, gamlan útgerðar - og verslunarbæ, sem er nokkrum km sunnar.

    Í um 50 km fjarlægð suður af Reykjavík er Reykjanesbær. Skammt suður af Reykjanesbæ er Keflavíkurflugvöllur. Hann er stærsti flugvöllur á Íslandi, byggður af herliði Bandaríkjamanna í seinni heimsstyrjöldinni og tekinn í notkun 1943. Við Keflavíkurflugvöll var bandarísk herstöð fram til haustsins 2006.
    Utan Reykjavíkur er byggðin dreifð um láglendið meðfram ströndinni og borgin heldur áfram að stækka á kostnað landsbyggðarinnar. Miklir fólksflutningar utan af landi til borgarinnar hafa átt sér stað á undanförnum árum og virðist ekkert lát þar á.