kafli11

Helstu söfn


Á Þjóðminjasafni Íslands, sem stofnað var 1863, eru varðveittar helstu þjóðminjar þjóðarinnar. Þangað er einnig safnað hvers kyns heimildum um íslenska menningarsögu og upplýsingum um þjóðlíf og þjóðhætti. Auk þess varðveita byggðasöfn úti á landi menjar sem tengjast sérstökum byggðalögum. Þjóðminjasafn Íslands hýsti Listasafn Íslands þar til það flutti í eigin húsnæði 1988.

Listasafn Íslands er þjóðlistasafn og leggur megináherslu á 19. og 20. aldar list, íslenska og erlenda. Það á merkasta safn íslenskra verka hér á landi og eftir alla helstu myndlistarmenn þjóðarinnar.

Þjóðarbókhlaðan var stofnuð 1994. Hún er stærsta bókasafn landsins og eru þar sameinuð Landsbókasafn og bókasafn Háskóla Íslands. Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn er rannsóknarbókasafn. Safnið er í senn þjóðbókasafn og bókasafn Háskóla Íslands. Hlutverk þess er m.a. að varðveita allt útgefið efni á íslensku og að vera almennt útlánasafn sem uppfyllir þarfir Háskóla Íslands hvað snertir íslensk og erlend fræðirit. Þar er sérstök þjóðdeild og handritadeild.

Listasafn Reykjavíkur er á Kjarvalsstöðum, Ásmundarsafni og í Hafnarhúsinu. Á Kjarvalsstöðum eru varðveittir listmunir Reykjavíkurborgar auk glæsilegrar sýningaraðstöðu sem þar er. Kjarvalsstaðir eru nefndir eftir íslenska listmálaranum Jóhannesi S. Kjarval en hann er einn virtasti listamaður þjóðarinnar. Hann ánafnaði Reykjavíkurborg stóran hluta listaverka sinna og persónulegra eigna árið 1968. Sérstakar sýningar á verkum Kjarvals eru haldnar á Kjarvalsstöðum ár hvert. Ásmundarsafn er nefnt eftir Ásmundi Sveinssyni einum af frumkvöðlum íslenskrar höggmyndalistar. Hann var á meðal þeirra sem kynntu fyrir Íslendingum nýja formskrift í myndlist 20. aldar. Verkum hans hefur verið komið fyrir á opinberum stöðum víða um land. Ásmundur ánafnaði Reykjavíkurborg listasafn sitt og húsin við Sigtún og þar hefur Ásmundarsafn verið opið almenningi frá árinu 1983.

Safnahúsið við Hverfisgötu er hluti af Þjóðminjasafni Íslands. Sýning Safnahússins er samstarfsverkefni nokkurra meginsafna landsins.

Nýlistasafnið á mjög stórt safn listaverka og heimilda og hefur tekist að varðveita einstæðan hluta af íslenskri listasögu. Í safninu eru verk eftir flesta félaga SÚM hópsins auk þess sem safnið á verk eftir marga helstu yngri listamenn þjóðarinnar og sífellt bætast við verk. Einnig á safnið verk eftir um 50 erlenda listamenn, þ.á.m. eitt stærsta safn verka sem til er eftir þýsk-svissneska listamanninn Dieter Roth. Öll verk í eigu safnsins eru valin af listamönnunum sjálfum, ekki sérfræðingum listastofnana.

Listasafn Akureyrar er eitt yngsta listasafnið á landinu. Hugmyndin að stofnun þess kom upphaflega frá Jónasi Jónssyni frá Hriflu í blaðagrein sem hann skrifaði árið 1960. Þrír áratugir liðu uns hugmyndin um Listasafnið á Akureyri komst aftur í umræðuna og varð hún loksins að veruleika á afmælisdegi bæjarins þann 29. ágúst 1993.

Auk þessa er fjöldi minni safna og sýningarsala víða um land.