kafli5
Landafundir

Á seinni hluta 10. aldar héldu Íslendingar vestur um haf í landaleit. Eiríkur rauði fann þá land sem hann nefndi Grænland „og kvað menn það myndu fýsa þangað farar að landið ætti nafn gott“ (Ari fróði, Íslendingabók). Samkvæmt Landnámu kannaði hann Grænland í þrjú ár en sneri þá aftur til Íslands. Sumarið eftir nam hann land á Grænlandi. 25 skip fylgdu honum af Íslandi til Grænlands en einungis 14 komust á leiðarenda. Hin týndust í hafi eða sneru við. Landnemarnir settust að á vesturströnd Grænlands og var þetta landnám framhald landnámsins á Íslandi. Siglingar til Grænlands lögðust af í byrjun 15. aldar og þegar landkönnuðir komu þangað tveimur öldum síðar fundu þeir aðeins hrundar bæjarústir. 
    Skömmu eftir landnámið á Grænlandi var Bjarni Herjólfsson á leið þangað en hraktist af leið og sá lönd á austurströnd Norður-Ameríku. Leifur Eiríksson, síðar nefndur Leifur heppni, fór í könnunarferð til þessara landa og nefndi þau Markland, Helluland og Vínland. Vínlandsferðir urðu ekki tilefni landnáms á meginlandi Ameríku en landkönnuðurnir reistu sér þar skála og komu sér fyrir á meðan þeir könnuðu landið.
    Talið er víst að Helluland sé Baffinsland og Markland sé Labrador en fræðimenn greinir á um hvar Vínlands sé að leita. Þó hefur þeirri skoðun vaxið fylgi að Vínland sé á Nýfundnalandi eftir að rústir fundust í L'Anse-aux-Meadows á norðurodda Nýfundnalands sem þykja benda til vistar norrænna manna þar.
    Sagt er frá ferðum norrænna manna til Grænlands og Vínlands í Grænlendinga sögu og Eiríks sögu rauða.