kafli3


3. Umhverfi og landafræði

  • Náttúruauðlindir og viðhorf til þeirraUmhverfismál í brennidepli
Umhverfismál hafa ekki verið jafn áberandi á Íslandi og víða annars staðar í Evrópu fram á síðustu ár. Lengi vel töldu Íslendingar sér ógnað af umhverfisverndarsamtökum á borð við Greenpeace og baráttu þeirra gegn hvalveiðum. Nú eru umhverfismál hins vegar í brennidepli, ekki vegna afskipta erlendra umhverfissamtaka, heldur vegna skiptra skoðana innanlands um nýtingu náttúruauðlinda landsins.Nýting náttúruauðlinda
Auk fengsælla fiskimiða býr Ísland yfir miklum auðlindum á sviði jarðhita og vatnsafls. Ekki eru allir á eitt sáttir um nýtingu þessara auðlinda og togast þar á sjónarmið þeirra sem vilja virkja og selja raforku til orkufreks iðnaðar, eða jafnvel útflutnings, og hinna sem vilja varðveita náttúru landsins ósnortna og sjá auðlindirnar best nýttar með öðrum hætti, s.s. með ferðamennsku. Þeir benda á að ósnortin náttúra heimsins sé hverfandi og þess vegna ætti að vera hægt að hafa tekjur af ferðamönnum fremur en að sökkva landsvæðum í þágu orkufrekrar stóriðju.
    Virkjanaframkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun, á s.k. Eyjabakkasvæði norðaustan Vatnajökuls, mættu mikilli andstöðu náttúruverndarsamtaka, útivistarfélaga og fleiri hagsmunahópa.
    Náttúruverndarsinnar bentu meðal annars á að svæðið hafi verið einstök náttúruperla í Evrópu og að þúsundir gæsa héldu til á Eyjabökkum ár hvert og biðu þess að verða fleygar á ný. Auk þess hafi svæðið verið kjörlendi hreindýra. 
    Innlendir og erlendir umhverfissinnar hafa líkt svæðinu við Yellow Stone Park í Bandaríkjunum og aðra þjóðgarða.Þjóðsöngurinn á hálendið
Almenningur lætur sig miklu varða hvernig auðlindir þær sem landið býr yfir eru nýttar. Þannig kom hópur náttúruverndarsinna saman við stíflustæði fyrirhugaðs Eyjabakkalóns haustið 1999 til að sýna hug sinn í verki. Hópurinn mótmælti virkjanaframkvæmdum með því að framkvæma gjörning.
    Steinum sem raðað hafði verið á jörðina var snúið við og þá kom í ljós að í þá hafði verið greyptur þjóðsöngur Íslendinga, eitt orð í hvern stein. Þátttakendur gengu svo hver með sinn stein og lögðu hann við rétta stiku sem merkt var með gæsafjöður. Steinarnir eru alls 68 og mátti lesa þjóðsöng Íslendinga á þriggja kílómetra leið á svæðinu. Þetta listaverk var hið lengsta á Íslandi.

Náttúran, ímynd hreinleikans
Víst er að Íslendingar líta almennt á náttúruna sem ímynd hreinleikans og vilja varðveita hana ósnortna í sem ríkustum mæli. Þeir flykkjast út fyrir þéttbýliskjarnana til þess að upplifa hina sérstæðu og oft hrikalegu náttúru landsins, kyrrð þess og fegurð.
    Fólk leggur oft mikið á sig til þess að eignast sumarbústað og víða hafa risið heilu sumarbústaðahverfin, sem má næstum líkja við nýtt landnám, á sama tíma og miklir fólksflutningar hafa átt sér stað til höfuðborgarinnar.Rafveitur um allt land
Virkjanir um allt land sjá landsmönnum fyrir nauðsynlegu rafmagni auk þess að knýja orkufrekan iðnað.
    Rafljós voru fyrst tendruð á Íslandi 1899 og fimm árum síðar var fyrsta rafstöð á Íslandi reist í Hafnarfirði. Í framhaldi af því voru reistar rafstöðvar í flestum stærri bæjum landsins.
   99.9% þjóðarinnar hafa aðgang að rafmagni frá rafmagnsveitum um allt land en þeir sem ekki njóta rafmagns frá rafmagnsveitum er fólk sem býr afskekkt og hefur þess í stað eigin heimarafstöðvar.Landið er auðugt af jarðhita
Landið er auðugt af jarðhita og eru laugar og hverir um allt land, að undanskildu Austur - og Suðausturlandi. Sumir þessara hvera gjósa og er Geysir í Haukadal þeirra frægastur. Hið alþjóðlega hugtak geyser er dregið af nafni hans.
    Vatnsmesti hver Evrópu, Deildartunguhver í Borgarfirði, gefur 180 l/s af 97°C heitu vatni. Hann sér Akranesi og Borgarnesi fyrir heitu vatni til húshitunar.
    Hitaveitur eru nú víða um land og sjá 80% þjóðarinnar fyrir heitu vatni til þvotta og húshitunar. Þá er jarðhitinn nýttur til ræktunar og í gróðurhúsum, sem hituð eru með jarðvarma, eru ræktaðar ýmiss konar erlendar tegundir ávaxta og grænmetis, s.s. paprikur, sveppir, tómatar, gúrkur og jafnvel bananar, auk alls kyns jurta. Þá er jarðvarmi einnig nýttur við fiskeldi.
    Frá fornu fari hefur lauga - og hveravatn verið notað til þvotta og baða. Snorralaug í Reykholti er t.d. talin hlaðin á 13. öld að frumkvæði Snorra Sturlusonar.
    Helsti sundstaður Reykvíkinga, Laugardalslaugin, er við Þvottalaugarnar í Reykjavík, þar sem reykvískar konur þvoðu áður þvotta sína. Það var áður en heitt vatn var leitt í hús en það var einmitt við Þvottalaugarnar sem fyrst var borað eftir heitu vatni til húshitunar árið 1928.

Orðaforði
Á landakortum eru jarðhitastaðir merktir með nöfnum sem innihalda orð eins og reykur, laug og hver.