kafli11

11. Listir og fjölmiðlar

  • KvikmyndirÁgrip af sögu kvikmyndagerðar
Íslensk kvikmyndagerð er ung listgrein. Fyrsta kvikmyndahús á Íslandi var opnað í Reykjavík árið 1906. Alllangur tími leið þó þar til Íslendingar fóru sjálfir að framleiða kvikmyndir. Fyrstu tilburðir til kvikmyndagerðar í landinu voru af hálfu útlendinga sem helst sóttust eftir að taka myndir af landslagi. Það voru einnig erlendir menn frá Nordisk Film Kompagni í Kaupmannahöfn sem komu til landsins árið 1919 og tóku fyrstu íslensku kvikmyndina, Sögu Borgarættarinnar eftir skáldsögu íslenska rithöfundarins Gunnars Gunnarssonar.
    Danir héldu áfram að gera kvikmyndir á Íslandi og stundum í samvinnu við Íslendinga en fyrsta talsetta kvikmynd Íslendings í lit var gerð af Lofti Guðmundssyni árið 1948. Hún heitir Milli fjalls og fjöru (Between Mountain and Shore). Myndin fjallar um ástarævintýri Ingólfs, fátæks bóndasonar, og ríkrar kaupmannsdóttur.
    Sá leikstjóri sem líklega hefur haft mest áhrif á æskuminningar eldri kynslóðar kvikmyndagerðarmanna í dag er Óskar Gíslason. Þekktasta mynd hans er barnaævintýrið Síðasti bærinn í dalnum (1950). Aðrir frumherjar í íslenskri kvikmyndagerð voru þeir Ásgeir Long og Ósvaldur Knudsen. Ósvaldur var frumkvöðull á sviði heimildamynda en hann einbeitti sér aðallega að kvikmyndum um eldfjöll. Ferðamenn sem heimsækja Reykjavík yfir sumarleyfistímann geta séð myndir hans daglega í litlu kvikmyndahúsi í grennd við Hótel Holt.
    Í upphafi áratugarins voru gerðar nokkrar kvikmyndir, m.a. eftir skáldsögu Indriða G. Þorsteinssonar; 79 af stöðinni (Girl Gógó) (1962) í leikstjórn Danans Eriks Balling, en það er ekki fyrr en upp úr 1980 sem íslensk kvikmyndagerð tekur verulegan vaxtarkipp.
    Í lok sjöunda áratugarins sneru margir ungir listamenn heim að loknu námi erlendis og veittu nýju lífi inn í listgreinina, jafnframt því sem Kvikmyndasjóður Íslands var stofnaður 1979. Hann sér um að úthluta fé til kvikmyndagerðar.

 Kvikmyndagerð í dag
Á undanförnum þrjátíu árum hefur verið mikil gróska í íslenskri kvikmyndagerð. Vaxandi alþjóðleg samvinna á sviði kvikmyndagerðar og fjármagn erlendra fjárfesta hafa auðveldað Íslendingum að taka sér kvikmyndagerð á hendur.
    Umheimurinn varð fyrst var við íslenska kvikmyndagerð þegar myndirnar Land og synir (Land and sons) í leikstjórn Ágústs Guðmundssonar, og Óðal feðranna (Father's Estate) í leikstjórn Hrafns Gunnlaugssonar, voru kynntar á kvikmyndahátíðum erlendis snemma á níunda áratugnum. Land og synir sló öll aðsóknarmet á Íslandi 110,000 miðar voru seldir, jafnvel þótt miðaverð væri mun hærra en á aðrar myndir, enda ekki á hverjum degi sem íslensk kvikmynd var sýnd í kvikmyndahúsum landsins. Land og synir og Óðal feðranna fjalla báðar um togstreituna milli sveitar og borgar á tímum ört vaxandi borgarmenningar. Með þeim hófst nýtt tímabil í íslenskri kvikmyndagerð og síðustu tveir áratugir hafa verið býsna frjósamir.
    Ákveðin tilhneiging hafði verið meðal leikstjóra til að sækja efnivið til fortíðarinnar eða að fjalla á ljúfsáran hátt um bernskuslóðir sínar. Atómstöðin (1984, The Atomic Station), eftir samnefndri skáldsögu Nóbelsskáldsins Halldórs Kiljan Laxness, var því nokkur nýlunda í íslenskri kvikmyndagerð. Þar er fjallað um pólitískt hitamál; herstöð Bandaríkjamanna á Íslandi sem miklar deilur höfðu verið um. Leikstjóri myndarinnar var Þorsteinn Jónsson.
    Þekktastir íslenskra leikstjóra eru þeir Hrafn Gunnlaugsson, Friðrik Þór Friðriksson og Baltasar Kormákur. Hrafn varð þekktur fyrir víkingamyndir sínar með myndunum Hrafninn flýgur (1984,When the Raven Flies), Í skugga hrafnsins (1988, In the Shadow of the Raven) og Hvíti víkingurinn (1991, The White Viking). Meðal þekktra kvikmynda eftir Friðrik Þór eru Börn náttúrunnar (1991, Children of Nature), Englar alheimsins (2000, Angels of the Universe), heimildarmyndin Sólskinsdrengurinn (2008, The Sunshine Boy, A mother's courage).  Baltasar Kormákur hefur meðal annars leikstýrt myndunum 101 Reykjavik (2001), A little trip to heaven (2006), með þeim Juliu Stiles og Forest Whitaker í aðalhlutverki, Contraband (2012) sem fékk mikla aðsókn í kvikmyndahúsum í Bandaríkjunum og Everest (2015). Einnig hefur hann gert myndir eftir skáldsögum Arnaldar Indriðasonar, Mýrin (2006, Jar City) og Grafarþögn (2010, Silence of the grave).

Framundan
Á nýrri öld má greina marga vaxtarsprota í íslenskri kvikmyndagerð. Fjárframlög frá Kvikmyndasjóði Íslands og fleiri styrkveitingar, aukið samstarf við erlenda aðila, áform erlendra kvikmyndafyrirtækja um tökur á Íslandi, og margir ungir og upprennandi kvikmyndaleikstjórar ættu að vera fyrirboðar um bjarta framtíð í íslenskri kvikmyndagerð.
    Peter Cowie hefur skrifað um íslenskar kvikmyndir: Icelandic Films (1995) og Icelandic films 1980-2000 [2001].