kafli8

Menntunarstig

Á Íslandi fer menntunarstig þjóðarinnar ört hækkandi. Samkvæmt tölum frá OECD 2000 höfðu 60% Íslendinga á aldrinum 25-64 lokið framhaldsskólaprófi og 24% höfðu menntun á háskólastigi. Árið 2012 var hlutfall þeirra sem luku framhaldsskólaprófi orðið um 71% og háskólaprófi 35%. Nemendum á háskólastigi hefur fjölgað hratt síðustu árin. Nú hefur Ísland eitt hæsta brautskráningarhlutfall allra OECD landa á háskólastigi í fræðilegu háskólanámi.
    Á síðari árum hafa þekking og rannsóknir í auknum mæli orðið grundvöllur verðmætasköpunar. Í stað þess að treysta nær eingöngu á auðlindir, einkum gjöful fiskimið og næga orku sem framleiða má með vatnsafli og jarðhita, beina Íslendingar nú sjónum sínum að nýjum möguleikum á sviði líftækniiðnaðar, hugbúnaðar, tölvuvinnslu, ferðaþjónustu og lyfjaframleiðslu. 
    Hærra menntunarstig hefur leitt til framþróunar og nýsköpunar á ýmsum sviðum og á undanförnum árum hafa íslensk fyrirtæki haslað sér völl í ýmiss konar hátækniiðnaði. Dæmi um slík fyrirtæki eru hugbúnaðarframleiðendur og fyrirtæki sem framleiða hátæknibúnað til nota í sjávarútvegi.