kafli4

Kvótakerfi

Á ári hafsins 1998, kynnti sjávarútvegsráðuneytið umhverfisyfirlýsingu sína. Þar segir m.a.:
„Í sjávarútvegsráðuneyti er stefnt að því að nýting auðlinda hafsins sé sjálfbær og byggt sé á bestu tiltækum vísindalegum rökum þegar ákvarðanir eru teknar. Þess verði gætt að líffræðilegum fjölbreytileika og vistkerfi hafsins sé ekki ógnað.“
Menn hafa gert sér grein fyrir því að auðlindir hafsins eru takmarkaðar og að aðgangur manna að henni getur því ekki verið frjáls.
    Til að tryggja verndun fiskistofnanna var kvótakerfi komið á 1984, en 1991 var allur fiskiskipaflotinn kvótasettur og hverju skipi skammtaður hlutur árlega.
    Um er að ræða nýtingarrétt sem heimilt er að selja, leigja eða nýta sjálfur eins og hverja aðra eign. Og þar stendur hnífurinn í kúnni. Tekist hefur verið á um áhrif þessa stjórnunarkerfis í fiskveiðum og hefur þar sitt sýnst hverjum, ekki síst vegna þess að að undanförnu hafa margir hagnast gífurlega á að selja kvóta sem þeir fengu úthlutað án endurgjalds.

Umræðan
Þeir sem eru mótfallnir kvótakerfinu gagnrýna fiskifræðinga meðal annars fyrir að viðurkenna ekki umhverfisáhrif; nauðsynlegt sé að veiða mikið til að skapa betri vaxtarskilyrði fyrir fiskistofnana og halda með því móti nægu æti, annars horist fiskurinn niður. Ekki skuli þvinga upp stærri stofna en hafið beri. Þetta eigi t.d. við um þorskinn. Aðrir telja að ekkert bendi til þess að fæðuskortur sé í sjónum og þorskur sé þar að auki þolgóður og geti verið án mikils ætis í langan tíma. Hagkvæmt sé að lofa honum að vaxa í sjónum því hann sé langlífur og í honum mikill fengur fái hann að stækka. Þá eru margir óánægðir með þær takmarkanir sem fylgja kvótakerfinu. Kvótinn gengur kaupum og sölum og ekki er á færi hvers sem er að leggja fyrir sig útgerð. Mörgum þykir sem heldur fáir njóti góðs af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar. Aðrir segja slíkt tal bera vott um öfund.
    Flestir eru þó sammála um nauðsyn þess að knýja fram lýðræðislegri umræðu en hingað til hefur átt sér stað. Stofnanir í fiskifræðum eigi það ella á hættu að verða að fílabeinsturnum sem viðkvæmir séu fyrir gagnrýni.