Háskólanám

Á Íslandi eru starfandi sjö skólar á háskólastigi. Þessir skólar eru eftirtaldir:

Háskóli Íslands
Háskóli Íslands var stofnaður 17. júní árið 1911, á aldarafmæli Jóns Sigurðssonar. Fyrstu 29 árin var hann til húsa í Alþingishúsinu við Austurvöll. Árið 1940 flutti Háskólinn í háskólabygginguna við Suðurgötu.
    Þegar Háskóli Íslands var stofnaður voru Prestaskólinn, Læknaskólinn og Lagaskólinn sameinaðir og mynduðu hver sína deild skólans, en auk þess var heimspekideild bætt við. Síðar bættust fleiri deildir við og árið 2008 sameinuðust Háskóli Íslands og Kennaraháskólinn. Nú eru 25 deildir við skólann á fimm meginsviðum: Félagsvísindasvið, Heilbrigðisvísindasvið, Hugvísindasvið, Menntavísindasvið og Verkfræði- og náttúruvísindasvið. Auk þess eru rúmlega áttatíu rannsóknastofnanir við háskólann.
    Nú er unnt að velja mörg hundruð mismunandi námsleiðir  við Háskóla Íslands og á ári hverju eru um 2800 einstök námskeið í boði við skólann.
    Um 13.000 stúdentar stunda nám við Háskóla Íslands, af þeim eru  rúmlega 500 doktorsnemar. Fastráðnir starfsmenn eru rúmlega 1500, en auk þess starfa um 2400 stundakennarar við skólann. 

Háskólinn á Akureyri
Háskólinn á Akureyri hóf starfsemi árið 1987 með kennslu á tveimur brautum; iðnrekstrar - og hjúkrunarbraut. Nú er boðið uppá fjölbreytt nám á 3 fræðasviðum og hægt er að ljúka um 20 prófgráðum á Bakkalástigi og meistarastigi. Um 1.800 nemendur eru í skólanum. 

Háskólinn í Reykjavík
Háskólinn í Reykjavík hóf starfsemi sína í september 1998 undir nafninu Viðskiptaháskólinn í Reykjavík. Í janúar 2000 var nafni nafni skólans breytt í Háskólinn í Reykjavík. Boðið er uppá um 50 námsleiðir í fjórum deildum.

Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri
Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri er vísindaleg fræðslu - og rannsóknastofnun á háskólastigi á sviði landbúnaðar. Skólinn veitir nemendum sínum fræðslu og vísindalega þjálfun í búfræði og er miðast við að þeir geti tekið að sér sérfræðistörf fyrir íslenskan landbúnað og unnið að rannsóknum í þágu hans.

Háskólinn á Hólum     
Háskólinn á Hólum býður upp á nám í þremur deildum; Ferðamáladeild, Fiskeldis- og fiskalíffræðideild og Hestafræðideild.  Einnig býður skólinn upp á rannsóknartengt framhaldsnám á meistarastigi.


Listaháskóli Íslands
Listaháskóli Íslands starfar í fimm deildum: myndlistardeild, tónlistardeild, listkennsludeild, hönnunar - og arkitektúrdeild og sviðslistadeild.  

Háskólinn Bifröst
Háskólinn á Bifröst er alhliða viðskiptaháskóli með tæplega 600 nemendur. Við skólann eru starfrækt þrjár deildir; viðskipta-, laga- og félagsvísindadeild auk frumgreinadeildar og símenntunarnámskeiða.

 

Aukið gildi símenntunar
Örar breytingar á öllum sviðum samfélagsins gera það að verkum að gildi símenntunar eykst stöðugt. Mikið er því um að fólk sæki námskeið af ýmsu tagi eftir að formlegu námi lýkur, hvort heldur sem er á starfssviði sínu eða áhugasviði. Námskeið eru haldin á vegum Endurmenntunarstofnunar Háskólans en auk þess annast tómstundaskólar, félagasamtök og einkaaðilar ýmiss konar námskeiðahald.