kafli4

Kvótasala

Alþingi samþykkti árið 1948 lög um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins. Er það yfirleitt talið marka upphaf sóknar Íslendinga til yfirráða yfir fiskimiðunum umhverfis landið. Með samkomulagi við Breta, og viðurkenningu þeirra á 200 mílna fiskveiðilögsögu Íslendinga árið 1976, varð mögulegt að stjórna veiðum úr helstu fiskistofnum sem þá voru nýttir við Ísland. Árið 1991 var allur fiskiskipafloti Íslendinga kvótasettur og hverju skipi skammtaður hlutur árlega. Um er að ræða nýtingarrétt sem heimilt er að selja, leigja eða nýta sjálfur eins og hverja aðra eign.
    Kvótasala hefur verið vaxandi frá upphafi kvótakerfisins og hefur kvótaeign færst á stöðugt færri hendur, ekki hvað síst vegna þess að á undanförnum árum hefur sameiningarbylgja gengið yfir í íslenskum sjávarútvegi. Hún hefur haft mikla hagræðingu í för með sér, en um leið takmarkaðri aðgang að fiskimiðunum en áður var.
    Stórar útgerðir kaupa kvóta af þeim litlu og atvinnuleysi blasir við í þorpunum þegar kvótinn er seldur burt úr byggðarlaginu. Hinir nýríku sem hagnast hafa á kvótasölu eru í gamni og alvöru kallaðir sægreifar.