kafli5

Forn bókmenntaarfur

Uppruni íslenskra bókmennta á rætur að rekja til tímans fyrir daga ritlistar og jafnvel fyrir landnám. Elstu sögur og kvæði varðveittust í munnlegri geymd fyrir tíma ritmenningar. Ritlistin barst til landsins í kjölfar kristnitöku (1000) og mikil bókagerð henni samfara.
    Fyrir tíma ritlistarinnar áttu Íslendingar sér annað letur, s.k. rúnir, en það var sérstakt stafróf sem germanskar þjóðir gerðu sér að rómverskri og grískri fyrirmynd en til þess fallið að rista í tré eða höggva í stein. Fræðimenn telja að kveðskapur hafi ekki að ráði verið varðveittur í rúnaristum, heldur í minni manna.
    Með tilkomu ritlistarinnar var farið að skrásetja fornar sögur og kvæði sem varðveist höfðu í minni manna kynslóð fram af kynslóð og landnámsmenn fluttu með sér úr sínum gömlu heimkynnum. Elstu bókmenntir Íslendinga eru sögur og kvæði af heiðnum goðum og hetjum.
    Fornum kveðskap Íslendinga er jafnan skipt í tvær höfuðgreinar; eddukvæði og dróttkvæði. Dróttkvæðin eru samtímakveðskapur, aðallega um konunga, en eddukvæðin fjalla um heiðin goð og hetjur og eru mörg ort í heiðnum sið. Þau eru því nátengd ásatrúnni og merk heimild um fornan norrænan átrúnað ásamt Snorra-Eddu, sem er fræðslubók um forna kveðskaparlist eftir Snorra Sturluson.