2. Mannfjöldi og húsnæðismál

Nokkrir bæir

 

Akureyri                                                                        

Akureyri er höfuðstaður Norðurlands og þriðji stærsti bær á Íslandi, með um það bil 18.000 íbúa. Akureyri liggur við vestanverðan botn Eyjafjarðar. Innsti hluti fjarðarins, Akureyrarpollur eða Pollurinn, er ein besta höfn landsins frá náttúrunnar hendi. Akureyri er mikill útgerðarbær og fullvíst er að Akureyri á hafnarskilyrðum tilveru sína að þakka, fremur öðru.
    Ekki er vitað hvenær byggð og verslun hófst á Akureyri en aðalverslunarstaður Norðurlands var að Gásum, 14 km norðan bæjarins, að minnsta kosti fram um 1400. Byggðin mun svo smám saman hafa færst innar. Ekki er um fasta byggð að ræða á Akureyri fyrr en um miðja 18. öld. Bærinn byggðist fyrst sem verslunarstaður og enn er þar mikil verslun, enda nærliggjandi sveitir fjölmennar.
    Akureyri er gróðursæll bær og þar er jafnframt geysimikill ræktunaráhugi. Garðar prýða bæinn og þeir, ásamt hávöxnum trjám á íslenskan mælikvarða, setja fallegan svip á bæinn að sumarlagi.
    Akureyri er stundum nefnd skólabærinn, enda hefur þar verið öflugt mennta - og menningarlíf um langan aldur. Þar eru tveir framhaldsskólar, myndlistaskóli, tónlistarskóli, háskóli og menntasmiðja sem stendur fyrir margskonar námskeiðum. Þar er einnig starfandi leikhús, ýmsir kórar og sinfóníuhljómsveit, svo óhætt er að segja að menningar - og listalíf í bænum sé blómlegt. Þá er íþróttalífið fjölbreytt. Tvö knattspyrnufélög eru starfrækt í bænum, sundfélag, skautafélag og golfklúbbur, svo eitthvað sé nefnt. Þá er Akureyri einn helsti skíðabær landsins.
    Kirkja stendur hátt í bænum og upp að henni liggja lengstu kirkjutröppur á Íslandi.


Egilsstaðir
Egilsstaðir, eru stærsti byggðarkjarninn í víðfemasta sveitarfélagi landsins, Fljótsdalshéraði, sem hefur um 3.400 íbúa. Á Egilstöðum er stjórnsýslusetur Austurlands og miðstöð samgangna á Austfjörðum. Hringvegurinn liggur í gegnum bæinn og þaðan er nánast jafn langt til Reykjavíkur, hvort sem er norður eða suður um land.
    Egilsstaðir eru á Fljótsdalshéraði, austan Lagarfljóts. Margar frásagnir eru af kynjaskepnum í Lagarfljóti. Ein þeirra segir frá Lagarfljótsorminum sem sagður er halda til í fljótinu og gera vart við sig stöku sinnum. Hans er fyrst getið í annálum 1345. Þegar hann skaut upp kryppum úr fljótinu var það talið boða stórtíðindi. Nú hefur gas fundist á tveimur stöðum, sem streymir upp úr vatninu, og þykir þar sumum komin skýringin á Lagarfljótsorminum.
    Við sunnanvert Lagarfljót er Hallormsstaðaskógur, stærsti skógur á Íslandi. Skógræktarstöð var stofnuð þar 1903 og þar eru nú framleiddar trjáplöntur og gerðar tilraunir með erlendar tegundir.


Ísafjörður
Stærsti bær Vestfjarða er Ísafjörður með um það bil 2.600 íbúa. Ísafjörður stendur við Skutulsfjörð sem er vestasti fjörðurinn er gengur til suðurs úr Ísafjarðardjúpi. Hann er girtur háum og bröttum fjöllum á báðar hliðar.
    Verslun á sér alllanga sögu á Ísafirði. Árið 1569 höfðu kaupmenn tekið sér fasta búsetu á eyrinni, sem bærinn stendur enn á, og heimildir eru um verslunarhús úr timbri frá fyrri hluta 17. aldar. Enn standa nokkur hús frá 18. öld, sem nú hafa verið friðlýst, og setja þau sérstakan svip á bæinn. Lítið er um svo gömul hús á Íslandi.
    Enn er Ísafjörður helsti verslunarstaður Vestfirðinga en þjónar þeim einnig hvað varðar skólagöngu unglinga og ýmsa þjónustu aðra. Þá hefur bærinn lengi verið útgerðarbær.
    Á Vestfjörðum  er rekið fjölmenningarsetur sem þjónustar fólki af erlendum uppruna. 


Vestmannaeyjar
Vestmannaeyjar er eyjaklasi úti fyrir suðurströnd Íslands. Til Vestmannaeyja teljast allt að 15-18 eyjar og allt að 30 sker og drangar. Eyjarnar mynduðust allar við eldgos og eru taldar sérstakt eldstöðvakerfi með miðju á Heimaey. Vitað er um fjögur gos í Vestmannaeyjum frá landnámi; hið fyrsta 1637 og það síðasta 1973 þegar gos varð í Heimaey með þeim afleiðingum að fjórðungur bæjarins eyðilagðist.
    Flestar eyjanna eru sæbrattar og erfiðar uppgöngu, nema fyrir vana fjallgöngumenn. Margar þeirra eru með lóðréttum hamraveggjum en grasi grónar að ofanverðu. Mikil fugla - og eggjataka er í Eyjum og er þar árlega veitt mikið af fugli, aðallega lunda.
    Vestmannaeyjabær með um 4.200 íbúa er staðsettur á Heimaey en hún er stærsta eyja Vestmannaeyja og er meðal mikilvægustu fiskibæja Íslands.