kafli11


Fjölmiðlar

Fjölmiðlar gegna stöðugt veigameira hlutverki í íslensku nútímasamfélagi. Þeir eiga að tryggja almenningi aðgang að fjölbreyttum upplýsingum og miðla þeim eftir ólíkum leiðum. Miklar breytingar urðu á vettvangi fjölmiðla á tuttugust öldinni. Þeim hefur fjölgað og ljósvakamiðlar, símtæki og tölvutækni gegna stöðugt stærra hlutverki. 


Ríkisútvarp var stofnað 1930. Það náði fljótlega til flestra byggða landsins og útvarpstækjum fjölgaði ört. Framan af var aðeins útvarpað fjórar til sex stundir á sólarhring. Ríkisútvarpið er rekið af íslenska ríkinu og að því er skylduáskrift. Það rekstrarfyrirkomulag hefur mætt nokkurri gagnrýni á tímum einkavæðingar. Málsvarar ríkisútvarpsins telja hins vegar að það gegni mikilvægu hlutverki fyrir landsmenn. Það sé útvarp allra landsmanna meðan útsendingar ýmissa annarra útvarpsstöðva nái aðeins til takmarkaðra landssvæða. Þetta sé mikilvægt m.a. með tilliti til miðlunar upplýsinga eins og aðvarana vegna náttúruhamfara. Þá telja málsvarar ríkisútvarpsins að menningarlegt gildi þess sé ekki síður mikilvægt.

Kvöldvaka við viðtækið
Segja má að ríkisútvarpið hafi tekið við hlutverki kvöldvökunnar að mörgu leyti. Í strjálbýlu bændasamfélagi fyrri alda styttu menn sér stundir við bóklestur, kveðskap og sagnakemmtun á kvöldvökunni. Þar var einnig lesinn húslestur. Kvöldvakan var að vísu vinnutími en hún var ennfremur samverustund heimilisfólksins. Þar var lesið af bók fyrir heimilisfólkið, kveðnar rímur af bók eða eftir minni og rætt um það sem fram var flutt. Kvöldvökunni lauk síðan með húslestri sem var helgistund í lok dagsins.
    Ríkisútvarpið er enn mótað af þessum þáttum. Auk frétta og margvíslegra þátta eru lesnar framhaldssögur, flutt kvæði, lesin morgunbæn og kvöldbæn, Passíusálmar Hallgríms Péturssonar eru lesnir á föstunni o.s.frv., en slíkt er arfur frá húslestrunum. Á fyrstu árum útvarpsins kom fólk jafnvel saman þar sem til var útvarp og settist við viðtækið og hlýddi á þulinn líkt og á kvöldvökunni áður.

Sjónvarp og íslensk menning
Sjónvarp hóf ekki útsendingar fyrr en 1966. Útsendingar þess voru takmarkaðar við kvöldin og eitt kvöld í viku, fimmtudagskvöld, var sjónvarpslaust auk þess sem útsendingarnar lágu niðri í júlímánuði. Það var ekki fyrr en 1. október 1987 að sjónvarpað var öll kvöld vikunnar. Með tilkomu sjónvarpsins fór að draga verulega úr því að fólk færi í heimsóknir hvert til annars eins og áður tíðkaðist. Þess í stað styttir fjölskyldan sér stundir fyrir framan sjónvarpið á síðkvöldum og skemmtir sér við efni hvaðanæva úr veröldinni. Þykir mörgum sem heimur versnandi fari og íslenskri tungu og menningu standi ógn af því flóði erlends efnis og tískustrauma sem flæða yfir landsmenn á þessum alþjóðlegu tímum. Sjónvarpið eigi drjúgan skerf í því. Aðrir benda á að þrátt fyrir þetta hafi íslensk tunga aldrei verið sterkari en nú. Fleiri tali hana en nokkru sinni fyrr og fjölmargir útlendingar leggja nú stund á íslenskunám bæði á Íslandi og við erlenda háskóla.

Aðrir miðlar
Árið 1986 hóf fyrsta einkarekna sjónvarpsstöðin starfsemi sína en síðan hafa komið fram fjöldi einkarekinna stöðva þar á meðal norðlenska stöðin N4.
    Fjögur stór dagblöð eru gefin út í Reykjavík. Þau teljast stórblöð ef miðað er við fólksfjölda. Morgunblaðið, er áskriftarblað, um 70 bls. að stærð. Fréttablaðið kemur einnig út á morgnanna í um 90.000 eintökum og er dreift frítt í öll hús á höfuðborgarsvæðinu auk þess að vera aðgengilegt á landsbyggðinni. Þriðja blaðið, DV er síðdegisblað, það kemur út tvisvar í viku í talsvert minna upplagi. Auk þess er Fréttatímanum dreift frítt þrisvar í viku í um 80.000 eintökum.
    Sífellt vinsælla er að lesa fréttirnar og sækja sér upplýsingar af margvíslegu tagi með því að fara inn á einhvern fréttavefinn á Netinu, vinsælustu fréttavefirnir eru ruv.ismbl.is og visir.is