kafli9

Kirkja og kristni

Útlendingur sem sækti Ísland heim kæmi líklega fljótt auga á fjölda kirkna. Söfnuðirnir standa sjálfir fyrir kirkjubyggingum og í flestum kirkjum eru jafnframt safnaðarheimili, ætluð til ýmissa félagsstarfa en félagsstarf kirkna er af margvíslegum toga.
    Um 72% þjóðarinnar eru í hinni lútersk-evangelísku kirkju. Þetta gæti gefið til kynna að Íslendingar væru allir á einu máli í trúmálum en svo er alls ekki. Íslendingar eru ekki sérlega kirkjuræknir en um hátíðir eru kirkjur þó þéttsetnar, auk þess sem barnastarfið er vinsælt og margir syngja í kirkjukórum.
    Íslendingar líta yfirleitt á trú sína sem einkamál en ræða gjarnan trúmál almennt af áhuga, ekki síður en stjórnmál.  Umræðan um aðskilnað ríkis og kirkju er langlíf og hefur orðið sífellt háværari undanfarin misseri, meðal annars í tengslum við ákvæði um þjóðkirkju í nýrri stjórnarskrá sem nú er unnið að.
    Þótt lúterska þjóðkirkjan sé fjölmennust starfa fleiri söfnuðir á Íslandi, 3,7% Íslendinga tilheyra Kaþólsku kirkjunni sem starfar á nokkrum stöðum á landinu, sem og hvítasunnukirkjan með um 0,63% landsmanna. Auk þeirra er nokkur flóra minni söfnuða og má þar nefna ásatrúarflokkinn sem notið hefur mikilla vinsælda, þeim flokki tilheyra um 1% þjóðarinnar.