kafli7
Jafnrétti kynjanna

Íslenskar konur voru í svipaðri stöðu og kynsystur þeirra í nálægum löndum allt fram á síðustu öld hvað mannréttindi varðar. Kvenréttindafélag Íslands var stofnað 1907. Árið eftir voru konur í fyrsta sinn kjörgengar til bæjarstjórnarkosningar. Árið 1915 fengu konur kosningarétt með skilyrðum en með stjórnarskránni 1918 fengu þær kosningarétt og kjörgengi að fullu á við karlmenn. Snemma var farið að krefjast sömu launa fyrir sömu vinnu en sú barátta hefur reynst bæði löng og ströng.
    Mörg stór skref hafa þó verið stigin til að auka jafnrétti kynjanna frá því að konur fengu kosningarétt. Áhersla er lögð á að jafnréttismál þurfi að vera viðfangsefni beggja kynja, enda hljóti bæði kynin að njóta góðs af auknu jafnrétti í samfélaginu. Leitast er við að gera bæði konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu - og atvinnulíf. Með feðraorlofi, kynhlutlausu starfsmati, jafnréttisnefnd, framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum og átaki til að vinna að aukinni þátttöku kvenna í stjórnmálum hefur verið unnið að því að tryggja raunverulegt jafnrétti karla og kvenna þó enn sé langt í land.