kafli8

Skólakerfi

Almenn skólaskylda er tíu ár. Gert er ráð fyrir að börn hefji grunnskólanám við sex ára aldur og ljúki því að jafnaði sextán ára.
    Frá árinu 1996 hafa sveitarfélög borið meginábyrgð á skólahaldi í grunnskólum en áður hvíldi sú ábyrgð á ríkinu. Samræmd próf eru haldin í ákveðnum námsgreinum í öllum grunnskólum landsins í 4., 7. og 9./10. bekk og ber menntamálaráðuneyti skylda til að sjá til þess að þau fari fram. Sérstök stofnun sér um framkvæmd samræmdra prófa, samningu, yfirferð og úrvinnslu þeirra.
    Að loknu grunnskólanámi hefja langflestir nemendur nám á framhaldsskólastigi. Þar er um ýmsa kosti að velja á sviði bóknáms eða starfsnáms. Allir sem lokið hafa grunnskólaprófi eiga rétt á að hefja framhaldsskólanám. Þeir sem ekki hafa lokið grunnskólanámi, eða hafa einhverra hluta vegna ekki þreytt samræmd próf, eiga þess kost að hefja nám í sérdeild eða á almennri braut. Töluvert brottfall er meðal nemenda í framhaldsskólum, sérstaklega stráka, og árið 2012 höfðu 71% Íslendinga 25-64 ára lokið framhaldsskólaprófi sem er mun lægra en á hinum Norðurlöndunum og undir OECD meðaltalinu en hlutfallið hefur farið nokkuð hratt uppá við síðustu árin .