kafli1


Ísland, eyja í Atlantshafi

Ísland er önnur stærsta eyjan í Evrópu og sú þriðja stærsta í Atlantshafi, 103.000 km2 að stærð, miðja vegu milli New York og Moskvu. Landið liggur á mótum heitra og kaldra hafstrauma auk þess sem heitt og kalt loft mætist gjarnan í grennd við Ísland. Þetta gerir það að verkum að landið er viðkvæmt fyrir loftslagsbreytingum. Þegar hafís frá Grænlandi er úti fyrir landinu, eða við strendur þess, kólnar í ári. Ísinn nær þó ekki ströndum Íslands í venjulegu árferði en á svokölluðum hafísárum getur hann borist að Norðvestur-, Norður - og Austurlandi. Sumur eru svöl og vetur mildir. Meðalhiti í Reykjavík í janúar er um það bil 0°C og 12°C í júlí. Á norðanverðu landinu er mun kaldara og oft snjóar þar mikið á veturna.
    Vegna norðlægrar legu landsins er bjart allan sólarhringinn tvo til þrjá mánuði á ári að sumri til. Á vorin og haustin eru kvöldin björt og löng. Frá miðjum nóvember til loka janúar er aftur á móti mjög dimmt og dagsbirtu nýtur ekki nema í þrjá til fjóra tíma á dag.
    Íslendingar tala mikið um veðrið enda getur það verið æði breytilegt, jafnvel kemur fyrir að snjói um hásumarið. Íslensk tunga er auðug af orðum yfir veðurfar, ekki hvað síst yfir snjó og snjókomu:

snjór, snær, hjarn, mjöll, fönn, lausamjöll, nýsnævi, krap, snjókoma, bylur, drífa, él, fannkoma, fjúk, hraglandi, hríð, kafald, kóf, ofanbylur, skafrenningur, snjómugga, hundslappadrífa.