Kafli4


Enginn dregur annars fisk úr sjó.
Þorskastríð við Breta

Íslendingar hafa ekki einungis deilt innbyrðis um þá mikilvægu auðlind sem hafið er. Erlendar þjóðir hafa löngum ásælst Íslandsmið, m.a. Bretar. Í byrjun tuttugustu aldar hófst barátta Íslendinga fyrir því að mega einir nýta fiskistofnana við Ísland, þegar ljóst var að auðlindin í sjónum er ekki ótæmandi. Í því skyni var fiskveiðilögsagan færð út í áföngum, allt frá árinu 1901 þegar hún var ákvörðuð þrjár mílur.
    Eftir heimsstyrjöldina síðari hófst gífurleg aðsókn evrópskra fiskveiðiþjóða á Íslandsmið, jafnframt því sem Íslendingar juku skipakost sinn. Afleiðingarnar létu ekki á sér standa. Fiskurinn í sjónum minnkaði svo mikið að ljóst var að hættuástand blasti við yrði ekki gripið til róttækra aðgerða. Fyrsta skrefið í þá átt var stigið 1948 þegar lög voru sett um vísindalega verndun fiskstofna á landgrunninu. Á sama tíma hófu Sameinuðu þjóðirnar að endurskoða þjóðréttarreglur um landgrunn og hafsvæði við strendur landa.
    Íslendingar héldu áfram að færa út landhelgi sína í áföngum við lítinn fögnuð Breta sem sendu herskip á miðin til að vernda skip sín við veiðarnar. Þráfaldlega kom til átaka milli Breta og Íslendinga á miðunum og voru íslensku varðskipin búin sérstökum togklippum sem skáru vörpuna frá fiskiskipunum. Gekk svo langt að til slita á stjórnmálasambandi kom á milli þjóðanna 1975 þegar landhelgin hafði verið færð út í núverandi horf, 200 mílur. Samningar tókust með þjóðunum 1976, fyrir milligöngu framkvæmdastjóra NATO og norskra ráðherra, og hefur verið með kyrrum kjörum síðan.
    Hafréttarsáttmáli Sameinuðu þjóðanna gekk í gildi 1985 og þar með voru loks komnar alþjóðlegar reglur um fiskveiðilögsögu og 200 mílna efnahagslögsaga Íslendinga var samþykkt.
    Nú stunda Íslendingar fiskveiðar um öll heimsins höf, langt út fyrir lögsögu sína.