kafli4


Lífið er saltfiskur

Sjórinn hefur löngum verið matarkista Íslendinga og fiskur helsta útflutningsvaran frá því á 14. öld. Atvinnuþátttaka í sjávarútvegi er enn mjög mikil. Rúmlega 5% atvinnubærra manna starfa í sjávarútvegi. Utan höfuðborgarsvæðisins er meðaltalið um 6% og allt að 30% á Vestfjörðum. Á höfuðborgarsvæðinu er hlutfallið lægst eða tæp 2%.
    Útgerð og fiskvinnsla er staðsett allt umhverfis landið og víða er meira eða minna öll afkoma sjávarþorpanna komin undir fiskinum í sjónum. Til þess að ná fiski úr sjó þarf kvóta en hann hefur verið eitt helsta bitbein þjóðarinnar um alllangt skeið.
    Nú er fiskiskipafloti Íslendinga búinn hátæknibúnaði á öllum sviðum og af sem áður var er menn stunduðu hér veiðar á seglskipum og árabátum. Vélvæðing fiskiskipaflotans um aldamótin, og þróun í frystingu sjávarfangs ásamt endurnýjun togaraflotans eftir síðari heimsstyrjöldina, hefur komið Íslendingum í röð fremstu fiskveiðiþjóða heims.
    Fiskiskipafloti Íslendinga er talinn einn sá besti í heimi með rúmlega 1700 skip, þar af nær 50 togara, um 760 vélskip og 850 opna fiskibáta. Fiskveiðar eru gríðarlega mikilvægar fyrir efnahag landsins og var það ein aðalástæðan fyrir þeirri ákvörðun að færa fiskveiðilögsöguna út í 200 mílur á sínum tíma, þrátt fyrir að það kostaði átök við Breta. Þetta gerði Íslendingum m.a. kleift að stjórna fiskveiðum innan lögsögunnar og fljótlega var settur á þær kvóti.

Útrás Íslendinga á fjarlæg mið
Ekki voru allir sammála um að æskilegt væri að Íslendingar sæktu sjó utan lögsögunnar. Er þeir hófu veiðar í svokallaðri Smugu í Barentshafi brugðust Norðmenn harkalega við. Íslendingar væru að veiða úr þeirra þorskstofni. Ýmsir (þar á meðal íslenskir fiskifræðingar) töldu að Íslendingar hefðu farið offari í Smuguveiðum sínum og ekki verið sjálfum sér samkvæmir. Samningar tókust að lokum við Norðmenn og Rússa og Íslendingar fengu takmarkaðan kvóta í Barentshafi gegn smávægilegum síldarkvóta á Íslandsmiðum. Síðastliðin ár hafa Íslendingar og Færeyingar einnig átt í svonefndri Makríldeilu við Norðmenn og Evrópusambandið vegna veiða á makríl í lögsögu ESB.
    Eftir Smuguveiðarnar opnuðust gáttir á fjarlæg mið og nú fara Íslendingar bókstaflega um öll heimsins höf og reka fiskiskip og fiskvinnslu víða um heim. Í Suður-Ameríku og Afríku eru Íslendingar að hasla sér völl og veita heimamönnum m.a. ráðgjöf í sjávarútvegsmálum. Sóknarfærin virðast óþrjótandi um allan heim.

    Mikil tækniþróun á sviði fiskveiða og fiskiðnaðar hefur orðið þessu samfara og hefur hátæknifyrirtækjum vaxið mjög fiskur um hrygg á undanförnum árum.
    Íslenski fiskiskipaflotinn landar um 1,3 milljónum tonna af fiski ár hvert.