Bessastaðir


Lýðræðisríki

Ísland er lýðræðisríki sem byggir á þingræði og hefðbundinni þrískiptingu valdsins. Löggjafarvaldið er í höndum Alþingis, en svo nefnist löggjafarsamkundan. Til setu á því eru valdir 63 fulltrúar í almennum kosningum á fjögurra ára fresti. Með framkvæmdarvald fara forseti og ríkisstjórn sameiginlega.
    Dómskerfið mynda tvö dómstig, héraðsdómar og Hæstiréttur. Unnið er að stofnun millidómsstigs en við það verða dómstigin þrjú, Héraðsdómstólar, Landsréttur og Hæstiréttur. Öll mál fara fyrir dómara í héraði en vilji aðilar ekki una úrslitum má áfrýja þeim til Hæstaréttar. Dómarar dæma í öllum málum á Íslandi, einn dómari í héraðsdómum (þrír ef sérstök ástæða þykir til) og þrír í Hæstarétti (fimm ef sérstök ástæða þykir til). Auk þessara dómstiga er starfandi félagsdómur, en til hans má kæra mál sem rísa af ágreiningi stéttarfélaga og vinnuveitenda. Ákvörðunum hans má vísa til Hæstaréttar.
    Forseti hefur takmarkað formlegt vald. Hann undirritar öll lög og reglugerðir og hefur vald til að neita því, ef það gerist er málið borið undir þjóðaratkvæði. Slíkt gerðist í fyrsta sinn í júní 2004 þegar Ólafur Ragnar Grímsson (forseti 1996-2016) neitaði að staðfesta lög um breytingar á útvarps - og samkeppnislögum. Í stað þess að beina málinu í þjóðaratkvæðagreiðslu voru lögin felld úr gildi stuttu seinna. Árin 2010 og 2011 neitaði svo Ólafur að staðfesta lög varðandi Icesave reikninga Landsbankans og vísaði þeim báðum til þjóðaratkvæðagreiðslu.