kafli8
Nöfn Íslendinga

Það getur verið fullkomlega venjulegt á Íslandi að í fjögurra manna fjölskyldu hafi engir tveir sama föðurnafnið, jafnvel þótt foreldrarnir séu giftir. Börn eru kennd við foreldra sína, oftast föður, en bera ekki ættarnafn allrar fjölskyldunnar eins og algengt er í öðrum löndum. Þegar íslenskt barn fæðist fær það ekki föðurnafn föður síns heldur skírnarnafn. En það er kennt við föður sinn (eða móður) að viðbættu -son eða -dóttir eftir kyni barnsins. Ættarnöfn eru vissulega til en þau eru fátíð.

Hugsum okkur eftirfarandi dæmi af nöfnum fjögurra manna fjölskyldu á Íslandi:
Faðirinn heitir Guðmundur Sigurðsson og móðirin heitir Guðrún Þorvaldsdóttir. Algengt er að láta börn heita í höfuðið á móður - eða föðurforeldrum. Þannig gæti sonur heitið Þorvaldur Guðmundsson eða Sigurður Guðmundsson. Dætur gætu borið nöfn föður - eða móðurömmu, ef haldið væri í hefðina. Hugsum okkur að föðuramman héti Þórunn og að barnabarnið héti í höfuðið á henni. Dóttirin héti þá Þórunn og væri Guðmundsdóttir. Í þessu dæmi er faðirinn Sigurðsson, móðirin Þorvaldsdóttir, sonurinn Guðmundsson og dóttirin Guðmundsdóttir.

Skírnarnafn er alltaf notað en ekki föður - eða ættarnafn. Talað er um Guðmund og Guðrúnu en ekki um Sigurðsson og Þorvaldsdóttur. Útlendingur sem kæmi til Íslands og þekkti Íslendinginn Guðrúnu Þorvaldsdóttur og vildi hringja til hennar, yrði að fletta upp á skírnarnafni hennar í símaskránni. Ein símaskrá er fyrir allt landið og er henni skipt upp eftir landshlutum og bæjarfélögum. Nöfnum er raðað í stafrófsröð eftir skírnarnafni en föður - eða kenninafn kemur á eftir.