kafli5

Nýyrðasmíði

Til að draga úr erlendum áhrifum á málið er markvisst unnið að nýyrðasmíði. Ný orð eru smíðuð af innlendum stofni. Dæmi um slíkt orð er þota yfir enska orðið jet, dregið af sögninni að þjóta. Þeir sem gagnrýna þessa aðferð mest benda á að nýyrði af íslenskum toga séu gjarnan mun lengri en enska orðið sem þau eigi að leysa af hólmi og þægilegra sé því að nota hið enska.
    Sem dæmi um þetta má nefna orðin geisladiskur og geislaspilari sem smíðuð voru yfir ensku orðin Compact Disc (CD) og CD Player. Önnur aðferð við endurnýjun orðaforðans er að endurvekja gömul orð og fá þeim nýja merkingu. Af þeim toga eru orð eins og skjár, sem nú merkir myndflötur t.d. sjónvarpsskjár, yfir enska orðið screen, en er í upprunalegri merkingu gegnsæ himna í glugga, notuð í stað rúðu.

En þrátt fyrir þetta hafa mörg erlend orð tekið sér bólfestu í íslenskunni og öðlast þegnrétt í málinu er þau aðlagast beygingakerfi þess. Dæmi um slík tökuorð eru jeppi, appelsína, banani, sápa og mörg fleiri. Þannig má segja að orðaforðinn endurnýist stöðugt þótt kjarninn sé ávallt hinn sami.