kafli10
Við árþúsundaskipti

Á þeirri hálfu öld sem liðin er frá því að Íslendingar urðu sjálfstæð þjóð hafa lífskjör batnað verulega og eru nú sambærileg við það sem best gerist í heiminum.
    Mikil áhersla er á gildi hvers einstaklings í þjóðfélaginu enda mikilvægt fyrir litla þjóð í harðbýlu landi að hver og einn leggi sitt af mörkum. Flestir vinna langan vinnudag og algengt er að unglingar stundi vinnu með skóla. Vinnusemi er talin einn höfuðkostur sérhvers manns og dugnaður er það sem fólki er líklega hrósað hvað mest fyrir. Þetta er þó ekki að öllu leyti gott og hefur sínar dökku hliðar því langur vinnudagur foreldra ungra barna kemur vissulega niður á þeim í mörgum tilvikum. Eftirsókn eftir efnislegum gæðum, svonefnt lífsgæðakapphlaup, þykir mörgum hafa gengið fulllangt. Í þessu sambandi getur verið forvitnilegt að skoða hvaða augum Íslendingar líta sjálfa sig.

Hvað er dyggð í augum Íslendinga?
Haustið 1999 var gerð skoðanakönnun til að kanna hvaða dyggðir Íslendingar meta mestar. Tilefnið var 1000 ára afmæli kristni í landinu. Leitast var við að ná fram persónulegri afstöðu hvers og eins. Könnunin leiddi í ljós að Íslendingar telja eftirfarandi dyggðir mikilvægastar: Heiðarleika, hreinskilni, jákvæðni, traust, dugnað, sterk fjölskyldu - og vinabönd, og heilsu. Heiðarleiki var sá kostur sem flestir vildu vera prýddir og töldu hann einnig þann eiginleika sem þeir vildu helst sjá í fari annarra.
    Niðurstöður könnunarinnar benda til að Íslendingar reiði sig á eigin dugnað og meti fjölskyldu og vini mikils. Þeir virði mest þá eiginleika í eigin fari og annarra sem varða samskipti og jákvæða afstöðu til lífsins. Samkvæmt könnunni meta þeir fjölskyldu - og vinabönd t.d ofar en menntun, heilsu og starfsframa. Þetta helst ágætlega í hendur við þann mikla ættrækni - og ættfræðiáhuga sem einkennir Íslendinga og birtist m.a. í ættfræðigrúski og mikilli útgáfu hvers kyns ættfræðirita. Þá eru Íslendingar iðnir við halda ættarmót og njóta þau mikilla vinsælda bæði ungra og aldinna.
    Íslendingar hafa gegnum aldirnar státað sig af að vera fræðimenn og rithöfundar, varðveita gamlar sagnir og vera menntaðri og fróðari en aðrar þjóðrir. Það skýtur því nokkuð skökku við hve lítils þeir virðast meta menntun. Þegar spurt var hvaða eiginleika menn mætu mest í fari annarra nefndu innan við eitt prósent menntun eða þekkingu. Þetta skýrist nokkuð þegar skoðuð eru svör við nákvæmari spurningu. Þá kemur í ljós að 70% telja menntun ekki eins mikilvæga og viljann til að gera það sem maður á að gera og 65% telja að sjálfmenntaður maður sé jafngóður og sá sem hefur langa skólagöngu að baki. Þetta bendir til að Íslendingar treysti á eigið hyggjuvit og dugnað en þyki lítið til um formlegt nám.
    Gera má ráð fyrir að smæð samfélagsins og einangrun ráði einhverju um þær áherslur sem birtast í könnunni.