Kafli3

 


3. Umhverfi og landafræði


Litlar breytingar á dýralífi frá upphafi byggðar
Vegna einangrunar landsins hafa ekki orðið miklar breytingar á dýralífi þess. Flestar dýrategundir eru af erlendum uppruna og talið er að einungis ein spendýrategund, tófan, hafi haft hér búsetu á undan manninum. Aðrar spendýrategundir hafa komið með honum við landnám. Þeirra á meðal er sauðkindin, sem átti eftir að halda lífinu í mannfólkinu á erfiðleikatímum, og hesturinn sem er líklega þekktastur íslenskra dýra.
Hreindýr voru flutt til landsins á 18. öld og eru nú um 5000 talsins. Þau eru einu dýrin af hjartarætt á Íslandi og lifa á heiðunum norðan og austan Vatnajökuls.
    Fiskisæld er mikil í íslenskum ám og vötnum og er lax - og silungsveiði vinsælt sport. Þá er fuglalíf fremur fjölskrúðugt í landinu og við strendur þess. Í hafinu umhverfis landið er fjölbreytt lífríki og þangað hafa Íslendingar jafnan sótt lífsbjörg sína.Íslenska sauðkindin
Þrátt fyrir örar breytingar á atvinnuháttum Íslendinga skipar sauðkindin enn mikilvægan sess á Íslandi. Hún varð samskipa landnámsmönnunum til Íslands fyrir meira en 1100 árum og hefur oft mátt þola misjafna daga í landi óblíðrar náttúru. En einstök nægjusemi hennar og hæfileikar til að komast af við þröngan kost átti eftir að halda lífinu í mannfólkinu á erfiðleikatímum.
    Þótt þjóðin byggi nú ekki lengur afkomu sína á landbúnaði og sauðfjárrækt skipta afurðir sauðkindarinnar enn miklu máli fyrir hana. Íslenska ullin er gædd einstökum eiginleikum sem gera hana þjála og togþolna og veita flíkur úr íslenskri ull sérstaklega gott skjól gegn bæði kulda og bleytu.
    Ullin var frá fornu fari notuð til klæðnaðar en einnig var unnið úr henni vaðmál sem var helsta útflutningsvara Íslendinga ásamt ull og gærum allt þar til skreiðin tók við á 14. og 15. öld. Nú eru íslenskar ullarvörur meðal þess sem erlendir ferðamenn sækjast hvað mest eftir að kaupa er þeir sækja landið heim.
    En kjötið af sauðkindinni er líka mikilvægt. Það var uppistaðan í kosti Íslendinga um aldir, ýmist ferskt, reykt (hangikjöt), saltað eða súrsað og allir hlutar skepnunnar voru nýttir. Enn í dag þykja réttir eins og lifrarpylsa, blóðmör, sviðahausar og súrsaðir hrútspungar hið mesta lostæti og eru meðal helstu rétta á þorrablótum landsmanna.
    Um langt árabil hefur ofnsteikt lambalæri með brúnuðum kartöflum, grænum baunum og rauðkáli verið sunnudagsmatur á borðum Íslendinga og er sannkallaður þjóðarréttur þeirra.
   Fjölskrúðugt fuglalíf

Fuglalíf er fremur fjölskrúðugt, sérstaklega hvað varðar sjófugla. Stærsta sjófuglategundin er lundi en hann er í milljónatali í landinu. Um helmingur lundastofnsins í heiminum verpir á Íslandi, aðallega á eyjum undan ströndum landsins. Alls hafa um 370 fuglategundir sést á landinu og árlega verpa um 75 tegundir á Íslandi. Þekktasta svæði til fuglaskoðunar er við Mývatn en þar er eitt mesta andavarp í heimi.
    Eggja - og dúntekja var áður ágætis búsílag og taldist til hlunninda að eiga aðgang að slíku, en nú er eggjatekja einkum stunduð til gamans. Dúntekja af æðarvarpi er hins vegar nokkur atvinnugrein.
    Sumir fuglar hafa verið mönnum hjartfólgnari en aðrir. Svo er t.d. um lóuna sem kemur til landsins snemma á vorin og er jafnan talin boða sumarkomuna. Skáld hafa lofsungið þennan elskaða fugl og allir Íslendingar kunna sennilega þetta kvæði:

Lóan er komin að kveða burt snjóinn
að kveða burt leiðindin það getur hún.
Hún hefur sagt mér að senn komi spóinn,
sólskin í dali og blómstur í tún.

Ekki er hægt að segja frá íslenskum fuglum án þess að minnast á hrafninn. Krummi, en svo er hann einnig nefndur, á sér langa hefð í þjóðarvitundinni, t.d. eru hrafnar fuglar Óðins í ásatrúnni. Þeir heita Huginn og Muninn og fljúga um allan heim til að afla húsbónda sínum frétta.
    Hrafninn er sá fugl sem allir landsmenn þekkja og um hann er til fjöldi kvæða og sagna, enda hefur hann jafnan verið Íslendingum hugleikinn. Hann gerir sér hreiður í klettum, oft í námunda við sveitabæi, þar sem hann hefur oft og tíðum orðið hálfgerður heimilisvinur. Margar sagnir eru til af krumma þar sem greint er frá því hvernig hann launar góðgerðirnar eða  hve illa fer fyrir þeim sem ekki reynast hrafninum vel.

 

Íslenski hesturinn
Íslenski hesturinn er einstakur í sinni röð. Hann hefur verið ræktaður allt frá landnámsöld og vegna einangrunar landsins hefur hann ekki blandast öðrum tegundum. Hann hefur aðlagast kaldri veðráttunni þannig að á veturna er feldur hans þykkur og úfinn en á vorin fellir hann vetrarhárin og er þá gljáandi og mjúkur. Íslenski hesturinn er fremur smávaxinn, viljugur og lipur og er stundum talinn til smáhesta. Hann þykir góður reiðhestur og er eini hesturinn sem býr yfir öllum fimm gangtegundum hesta; tölti, skeiði, brokki, stökki og fetgangi.
  Þótt íslenski hesturinn sé smávaxinn er hann sterkur og þróttmikill. Hann hefur löngum verið nefndur þarfasti þjónn mannsins í landi sem áður fyrr var oft erfitt yfirferðar og má segja að allir flutningar á landi hafi farið fram með aðstoð þessa þarfa þjóns. 
  Enn gegnir íslenski hesturinn veigamiklu hlutverki í lífi marga Íslendinga. Í nútímasamfélaginu er hann ekki lengur þarfasti þjónninn en hestamennska er vinsælt sport, stunduð af mörgum hvort sem er í sveitum, bæjum eða borg. Mikill fjöldi hesta er í landinu. Hestar eru á flestum sveitabæjum og sérstök hesthúsahverfi eru nánast hvarvetna í þéttbýli. Íslenski hesturinn er á vissan hátt nokkurs konar tengiliður við sveitamenninguna sem er á hröðu undanhaldi í landi ört vaxandi tækniþróunar og borgarmyndunar. 

 

Hvalir
Hvalir hafa löngum heillað menn eins og margar sagnir eru til vitnis um. Þeir hafa óttast þessa ógnarstóru konunga undirdjúpanna og heillast af þeim í senn. Margar sagnir greina frá hetjulegum viðureignum við hvali og frægust er líklega skáldsagan Moby Dick eftir ameríska rithöfundinn Herman Melville. 


Keikó
Frægastur íslenskra hvala er háhyrningurinn Keikó. Fyrir rúmlega þrjátíu árum var veiddur hér við land háhyrningur í þeim tilgangi að verða sýningargripur á sædýrasafni í Bandaríkjunum. Þar var hann nefndur Keikó og lék m.a. í kvikmyndinni Free Willy sem fjallar um hval sem er fangi í sædýrasafni en öðlast svo frelsi. Þessi mynd hafði mikil áhrif á álit almennings á hvalveiðum og mörg samtök voru stofnuð til verndar hvölum. Saga Keikós þótti minna svo mjög á sögu hvalsins Willy að ákveðið var að flytja hann aftur til heimkynna sinna við Íslandsstrendur. Hafinn var undirbúningur þessa risastóra verkefnis og háhyrningurinn Keikó fluttur með flugvél til Heimaeyjar í Vestmannaeyjum í september 1998. Þar var hann í sérstakri kví þar sem hann var búinn undir að öðlast fullt frelsi á ný. Sumarið 2002 synti Keikó að eigin frumkvæði yfir Norður-Atlantshafið til vestur strandar Noregs þar sem hann dvaldi þar til hann dó í desember 2003. 
  Mikil umfjöllun var um þetta mál á Íslandi og margir þeirrar skoðunar að þetta hafi verið fulllangt gengið en aðrir bentu á að sagan af Keikó sýni mönnum að unnt sé að hagnast á hvölum án þess að til hvalveiða komi, það sé mikill áhugi á hvölum í heiminum sem nýta megi á annan hátt. 

Hvalaskoðun
Allt frá miðöldum voru hér stundaðar hvalveiðar, eða til ársins 1986 en þá hættu Íslendingar hvalveiðum nema í vísindaskyni. Árið 1989 var öllum hvalveiðum hætt fram til haustsins 2006 þegar þær voru leyfðar að nýju í atvinnuskyni.
  Nú eru hvalaskoðunarferðir að verða stöðugt vinsælli og eru þær sérstök grein innan ferðaþjónustunnar. Þeir sem standa fyrir hvalaskoðunarferðum eru andvígir hvalveiðum en aðrir benda á að þetta tvennt geti mætavel farið saman.