kafli10_flugvel

Á ferð og flugi

Íslendingar sækjast mikið eftir að fara til annarra landa í fríum. Sólarlandaferðir hafa lengi verið ofarlega á vinsældalista landsmanna, enda sumarið á Íslandi stutt og baðstrandalíf nokkuð sem varla þekkist á hinu ísa kalda landi. Þegar veður er sérlega gott á Íslandi er jafnvel talað um Mallorca-veður og Bongo-blíðu! Styttri borgarferðir eru einnig vinsælar, hvort sem um er að ræða menningar- eða verslunarferðir.
    Innanlandsferðalög njóta vaxandi vinsælda. Landið er eyja og fólk talar gjarnan um að það ætli að fara hringinn í fríinu og á þá við að það ætli að aka hringveginn um Ísland. Ýmsir gistimöguleikar eru fyrir hendi. Þeir hugdjörfustu láta sér tjaldið nægja en þar sem jafnan er allra veðra von á Íslandi er vissara að vera við öllu búinn. Rok og rigning setja oft strik í reikninginn. Aðrir ferðast með tjaldvagna eða hjólhýsi og dvelja á tjaldstæðum sem eru víðs vegar um landið.

Sveitarómantík
Sumarbústaðaeign er mikil og leggur fólk oft töluvert á sig til að koma sér upp góðum sumarbústað og eiga með því móti kost á að komast út úr borginni sem oftast. Borgarmyndun er tiltölulega ný af nálinni, landið var bændasamfélag langt fram á tuttugustu öldina og taugin til átthaganna er oft býsna römm. Þannig má að sumu leyti líta á sumarbústaðinn sem nokkurs konar tengilið við liðna tíð.
    En ef til vill koma tengslin við fortíðina og sveitina hvergi betur fram en í hestamennskunni. Hesturinn var um aldir þarfasti þjónn Íslendinga og erfitt hefur reynst að segja skilið við hann. Hestamennska og hvers kyns reiðferðir verða sífellt vinsælli og hestaleigur hafa sprottið upp víða um land og njóta mikilla vinsælda.

Náttúrudýrkun
Íslendingar eru miklir náttúruunnendur og margir bregðast öndverðir við ef hrófla á við náttúru landsins. Má ef til vill líta svo á að þjóðernishyggja sú sem beindist áður fyrr að bókmenntum og tungu og einkenndist af verndarstefnu, og stundum nokkurri þröngsýni, beinist nú í ríkari mæli að náttúru landsins. Náttúruvernd er líklega það málefni sem auðveldast er að fá Íslendinga til að sameinast um. Þessi mikli áhugi á náttúrunni kemur m.a. fram í því að Íslendingar sækjast mjög eftir hvers kyns útivist í fríum sínum. Gönguferðir og fjallgöngur eru mikið stundaðar og stangveiðar í lax - og silungsveiðiám eru vinsælt sport á Íslandi.
    Stöðugt fleiri sækjast eftir að skoða hálendi Íslands. Hálendisferðir er unnt að stunda hvort sem er að sumri eða vetri á sérútbúnum jeppum. Fara verður mjög varlega í hálendisferðum og ganga verður af ítrustu nærgætni um náttúru landsins sem er afar viðkvæm fyrir öllu raski. Akstur utan vega eða merktra slóða er stranglega bannaður á hálendinu. Það er ófrávíkjanleg regla að ferðamenn verða að láta vita af sér áður en lagt er í slíkar ferðir og leggja fram nákvæma ferðaáætlun til næstu lögreglustöðvar sökum óáreiðanlegs veðurs og annarra varasamra umhverfisþátta. Sé öllum reglum fylgt geta hálendisferðir orðið ánægjuleg og ógleymanleg reynsla.
    Snjósleðaferðir er einnig hægt að stunda bæði á veturna og á sumrin og þá er boðið upp á ferðir upp á jöklana í fylgd leiðsögumanns.