kafli9

1000 ára kristni

Kristni var lögtekin á Íslandi árið 999 eða 1000. Kirkjan náði fljótlega mikilli kjölfestu í pólitísku og menningarlegu lífi þjóðarinnar. Tveir biskupsstólar og klaustur víða um land urðu mikilvægar menningarmiðstöðvar og áttu ríkan þátt í því blómaskeiði íslenskrar menningar sem nefnt er sagnaritunaröld. Íslendingar voru kunnir á Norðurlöndum fyrir áhuga sinn á sögu og skáldskap, enda var sagnaskemmtun og kveðskapur ein helsta afþreying Íslendinga um aldir.
   
    Um lifandi trú á Íslandi komst hinn kunni fræðimaður Sigurður Nordal svo að orði árið 1940 í erindi um trúarleg málefni:

Ég fæ ekki betur séð en kristnin sé að kulna út meðal almennings. Ef áhrif hennar fara jafnþverrandi næstu 60 árin og síðustu 60 árin, getur hún haldið afmæli sitt árið 2000 með því að standa hér um bil í sömu sporum og hún var eftir ræðu Þorgeirs Ljósvetningagoða, nema hvað kæruleysið verður orðið miklu meira, því að á alþingi árið 1000 var þó deilt um hana.

Kristnitökuhátíð á Þingvöllum árið 2000
Efnt var til kristnitökuhátíðar á Þingvöllum sumarið 2000 í tilefni þess að 1000 ár voru liðin frá því að Íslendingar tóku kristna trú. Gert var ráð fyrir miklu fjölmenni og allur undirbúningur miðaður við að verulegur hluti þjóðarinnar tæki þátt í hátíðahöldunum. Miklu var til kostað að gera hátíðina sem veglegasta. Aðeins lítið brot þjóðarinnar skundaði þó á Þingvöll kristnihátíðardagana. Kostnaður á mann varð því gríðarlegur. Þetta olli óánægju margra og miklar umræður spunnust um málið. Fjölmargar blaðagreinar birtust þar sem fylgjendur kristnihátíðar og þeir sem andvígir voru skiptust á skoðunum. Sigurður Nordal var því ekki sannspár að öllu leyti. Vissulega var deilt um kristni á 1000 ára afmælinu en þær deilur snerust fyrst og fremst um hvernig fjármunum hefði verið varið til kristnihátíðarinnar, en ekki um kristna trú sem slíka.