Holtasoley

 


3. Umhverfi og landafræði

Hrjóstrugt land
Ísland er hrjóstrugt land. Aðeins lítill hluti þess er byggilegur og einungis fjórðungur landsins er þakinn gróðri. Helstu ástæður þessa eru loftslag sem er óhagstætt gróðri, gosvirkni, hreyfingar skriðjökla og ofbeit. Um 60% landsins er í yfir 400 metra hæð yfir sjávarmáli en í 200-400 metra hæð dregur mjög úr gróðri og þegar komið er í 700 metra hæð yfir sjávarmáli er landið að mestu gróðursnautt.
    Gróður einkennist af lágvöxnum plöntum eins og lyngi og birki. Engir stórir skógar eru í landinu en mikill áhugi er meðal landsmanna á skógrækt og landgræðslu. Stærsti skógur á Íslandi er Hallormsstaðaskógur á Héraði.
    Fyrir þann sem er áhugasamur um íslenskar jurtir er tilvalið að heimsækja grasgarðinn á Akureyri. Þar eru ræktaðar flestar innlendar tegundir jurta. Í Laugardal í Reykjavík er einnig fallegur grasgarður, en nokkru minni en sá á Akureyri.

Landeyðing
Í aldanna rás hefur orðið mikil eyðing á gróðri og skógi, bæði vegna áhrifa náttúruaflanna og ágangs mannsins. Talið er að gróið land hafi verið um 60% við landnám en er nú aðeins um 25%, þar af er aðeins 1% lands skógi vaxið.
    Landsvæði hafa verið ræst fram og fé og hrossum beitt óspart á landið með alvarlegum afleiðingum fyrir gróðurinn. Ýmislegt er gert á vegum ríkisins og ýmissa félagasamtaka til að sporna gegn þessari þróun. Auk þess sýnir almenningur landgræðslu mikinn áhuga.Náttúruvernd og þjóðgarðar
Fyrstu náttúruverndarlög á Íslandi voru sett árið 1956. Tilgangur laganna er að stuðla að samskiptum manna og náttúru þannig að ekki spillist að óþörfu líf eða land né heldur mengist sjór, land eða andrúmsloft.
    Í þeim er gert ráð fyrir verndun ákveðinna svæða fyrir áhrifum mannsins, með það fyrir augum að náttúran fái að þróast á eigin forsendum og að það sem sérstætt er eða sögulegt njóti verndar. Sérstakar stofnanir starfa samkvæmt þessum lögum.
    Um það bil 80 svæði, eru nú merkt náttúruverndarsvæði þar sem fólki gefst kostur á að njóta villtrar og ósnortinnar náttúru.
    Þar á meðal eru þjóðgarðarnir; Þingvellir, Snæfellsjökull og Vatnajökulsþjóðgarður sem var stofnaður í júní 2008 og er stærsti þjóðgarður Evrópu, nær yfir 12.000 ferkílómetra svæði.   
    Auk náttúruverndarsvæðanna eru mörg önnur svæði friðuð af öðrum ástæðum og má þar nefna svæði sem vernduð eru af Landgræðslu ríkisins (The State Land Reclamation Service) og Skógrækt ríkisins. Einnig eru sérstök skógræktarsvæði afmörkuð.
    Almennur áhugi er fyrir skógrækt og landgræðslu og hefur heilmikið áunnist á þeim sviðum, en mikið starf er þó framundan ef vel á að vera.