Sumarstarfsmenn 2017


Aðalsteinn Hákonarson vinnur við verkefnið Breytingar á hljóðdvöl og aðblæstri í íslensku fyrir 1700 sem Haukur Þorgeirsson rannsóknardósent stýrir. Um er að ræða rannsókn á þáttum úr sögu aðblásturs og sérhljóðalengdar í íslensku. Notast er við korpus með innrímuðum kveðskap, einkum undir háttunum dróttkvætt og hrynhent, sem inniheldur kvæði og vísur frá 9. til 17. aldar og telur um 25.000 vísuorð. Fyrstu niðurstöður benda til þess að hljóðbreyting, sem sennilega tengist aðblæstri, hafi gengið yfir á 13. og 14. öld. Einnig hafa komið í ljós vísbendingar þess efnis að á vissu skeiði, þegar að hljóðdvalarbreytingin var langt gengin, hafi reglur um dreifingu sérhljóðalengdar í samsettum orðum að ákveðnu leyti verið frábrugðnar þeim sem nú gilda. Dæmasöfnun er að mestu lokið og er nú unnið úr niðurstöðum. Verkefnið er styrkt af Rannsóknarsjóði Háskóla Íslands og hefur Aðalsteinn vinnuaðstöðu í Gimli.

 

Birgitta Guðmundsdóttir og Olga Margrét Ivonsdóttir Cilia vinna annað sumarið í röð að rannsókn sinni á skilningi almennings á íslensku lagamáli. Leiðbeinendur eru sem fyrr Ari Páll Kristinsson rannsóknarprófessor og Sigrún Steingrímsdóttir málfarsráðunautur við Héraðsdóm Reykjavíkur og er verkefnið styrkt af Rannsóknasjóði Háskóla Íslands. Birgitta og Olga Margrét hafa vinnuaðstöðu á starfstöð stofnunarinnar að Laugavegi 13.

 

Fjóla María Jónsdóttir vinnur við að skrá sendibréf til Jóns Árnasonar þjóðsagnasafnara en bréfin verða mynduð og vistuð á einkaskjol.ishttp://einkaskjol.is/index.php/bref-til-jons-arnasonar. Verkefnið er hluti af rannsóknarverkefninu Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri: Tilurð, samhengi og söfnun 1864–2014 sem Rósa Þorsteinsdóttir rannsóknarlektor stýrir. Verkefnið er styrkt af Rannís og hefur Fjóla María vinnuaðstöðu á Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni þar sem sendibréfin eru nú í millisafnaláni frá stofnuninni.

Kristín Anna Hermannsdóttir vinnur jafnframt við fyrrnefnt verkefni Rósu Þorsteinsdóttur en starf hennar felst í að skrifa upp sendibréf til Jóns Árnasonar frá íslenskum samstarfsmönnum hans við þjóðsagnasöfnunina. Kristín Anna hefur vinnuaðstöðu á starfstöð stofnunarinnar í Árnagarði.

 

Jack Hartley vinnur við skráningu fornbréfa á handrit.is undir stjórn Þórunnar Sigurðardóttur rannsóknarlektors. Verkefnið er styrkt af Rannsóknarsjóði Sigrúnar Ástrósar Sigurðardóttur og Haralds Sigurðssonar.

 

Oddur Snorrason vinnur við endurnýjun Málfarsbankans undir stjórn Jóhannesar B. Sigtryggssonar. Verkefnið er styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna og hefur Oddur vinnuaðstöðu á starfstöð stofnunarinnar að Laugavegi 13.

Hulda Óladóttir vinnur einnig við endurskoðun Málfarsbankans. Verkefnið er styrkt af Málræktarsjóði. Hulda hefur vinnuaðstöðu á starfstöð stofnunarinnar að Laugavegi 13.