Útdrættir

Til baka: Málþing um íslensku sem annað og erlent mál...
 

Málstofa 1: máltileinkun | 2: kennslufræði | 3: milli mála | 4: mál og menning

 

Málstofa 1. Rannsóknir á máltileinkun


María Garðarsdóttir
„Mér veit ekki hvað mér vantar – um aukafallsfrumlög í íslensku sem öðru máli.“

Í fyrirlestrinum verður sjónum beint að aukafallsfrumlagi í íslensku sem öðru máli. Sagt verður frá niðurstöðum rannsóknar á aukafallsfrumlögum í máli íslenskra málnema og tengsl þeirra við tileinkun sagnorðaforðans. Í úrvinnslukenningunni (e. Processability Theory) er gert ráð fyrir því að þróun frumlagsfalls sé í beinum tengslum við merkingarhlutverk frumlaganna. Þannig komi frumlög sem hafa skýr og bein tengsl við merkingarhlutverkið, eins og gerendafrumlög, fyrst fram í tileinkuninni. Síðar þegar málnemar eru komnir nokkuð á leið í tileinkuninni verði þeir færir um flóknari tengsl eins og t.d. skynjendafrumlög. Í rannsókninni var könnuð notkun og þekking málnema á aukafallssögnum og hvaða fall þeir nota með frumlaginu. Niðurstöðurnar verða settar í samhengi við merkingarhlutverk og tíðni sagnanna. Að lokum verður sett fram tilgáta um tileinkunarröð aukafallsfrumlaga í íslensku sem öðru máli á grundvelli úrvinnslukenningarinnar og niðurstöðu rannsóknarinnar.

Sigríður D. Þorvaldsdóttir
„Forsetningar og fallstjórn þeirra í íslensku sem öðru máli.“

Forsetningar eru meðal algengustu orða í íslensku og því ekki undarlegt að þær komi snemma fram í máli málnema. Forsetningar, líkt og sagnir, stýra föllum en fallstjórn sagna og forsetninga er nokkuð ólík. Þolfall er langalgengasta andlagsfall sagna - um 70% sagna stýra þolfalli en 25% sagna stýra þágufalli. Þessi hlutföll eru jafnari þegar kemur að forsetningum; allmargar forsetningar stýra þolfalli og margar stýra þágufalli. Flestar forsetningar stýra einu falli en nokkrar hafa breytilega fallstjórn og geta t.d. stýrt þolfalli eða þágufalli, allt eftir merkingu. Í þessum hópi eru tvær algengustu forsetningar málsins, forsetningarnar í og á. Þágufall í fylliliðum þessara forsetninga er mun algengara en þolfall.

Í erindinu verður fjallað um forsetningar og föll í máli útlendinga sem læra íslensku við Háskóla Íslands. Sagt verður frá rannsókn á notkun forsetninga, fallstjórn þeirra og sérstaklega hugað að forsetningum með breytilega fallstjórn. Niðurstöðurnar verða ræddar og bornar saman við rannsókn belgíska fræðimannsins Kristofs Baten (2011 og 2013) en hann rannsakaði föll í þýsku sem öðru máli og setti fram tilgátu um þróun fallatileinkunar í forsetningarliðum í ljósi úrvinnslukenningarinnar (e. Processability Theory).

Helga Hilmisdóttir
„Orðræðuagnir og máltileinkun.“

Orðræðuagnir (e. discourse particles) eru óbeygjanleg orð og orðasambönd sem ekki bæta við merkingu segðarinnar en gegna engu að síður mikilvægu hlutverki í samtölum. Til orðræðuagna teljast orð úr ýmsum orðflokkum svo sem atviksorð, fornöfn, sagnir og nafnorð. Orðræðuagnir mynda því ekki eigin orðflokk heldur má segja að orð úr öðrum orðflokkum séu notuð sem orðræðuagnir. Orðræðuögnum er svo hægt að skipta í minni flokka, t.d. í agnir sem sýna blæbrigði (þýs. Abtönungspartikeln), svör (e. response particles) eða gefa til kynna hvernig segðin tengist því sem á undan er komið (e. discourse marker). Til orðræðuagna í íslensku teljast m.a. orð eins og já, nei, sko, jæja, nú, bara, nú, hérna, þarna, aha, ha og jahérna (sjá t.d. Helga Hilmisdóttir 2010, 2011).

Í þessum fyrirlestri verður fjallað um orðræðuagnir í kennslu í íslensku sem öðru máli. Tilgangur rannsóknarinnar er þríþættur: 1) Skoðað verður hvernig fjallað er um orðræðuagnir í kennslubókum fyrir erlenda stúdenta og það borið saman við kennslubækur annarra mála, 2) skoðað verður hvernig nemendur fara að því að tileinka sér orðræðuagnir, og 3) kannað verður hvernig nemendur nota þær orðræðuagnir sem þeir þegar hafa tileinkað sér.

Rannsóknin byggir annars vegar á viðtölum við nemendur í íslensku við Háskólann í Helsinki og hins vegar á frjálsum umræðum eða „kaffihúsaspjalli“ annars árs nema við sama skóla. Við greiningu á samtölum verður notast við aðferðir samskiptamálfræðinnar.


 

Málstofa 2. Kennslufræði


Birna Arnbjörnsdóttir
„Framlag Icelandic Online til þekkingar á tölvustuddri tungumálakennslu.“

Icelandic Online  hefur verið í stöðugri þróun í 15 ár en um 150.000 gestir hafa skoðað vefinn frá því hann var opnaður árið 2004. Þetta langlífi er fáheyrt Í hröðum heimi tækniframfara og gefur einstaka möguleika til rannsókna á hegðun nemenda þegar þeir kljást við tungumálanám gegnum tölvur. Í þessu erindi verður frekari þróun Icelandic Online lýst meðal annars endurgerð Icelandic Online til notkunar í fartækjum og hvernig vefurinn styður við málnotkun í sýndarheimi. Þá verður gerð grein fyrir nýjum rannsóknum á hegðun notenda IOL í ljósi fjölgunar svokallaðara MOOC námskeiða. Að lokum verður lýst möguleikum til frekari rannsókna á  Icelandic Online og framlagi slíkra rannsókna til þekkingar á kennslufræði tungumála á netinu. Þar mætti nefna aðferðir eins og Fókus á form og gerð vinnupalla (e. scaffolding). Vefurinn fylgir nemendum eftir þegar þeir vinna með keðjur námsviðfanga sem þróuð hafa verið eftir þessum aðferðum og hvernig þeim gengur að leysa verkefni við enda keðjunnar. Hefðbundnar rannsóknir byggjast á hvað nemendur segjast gera og læra en gegnum IOL er unnt að mæla hvað nemendur gera í raun og hvort kennsluaðferðirnar leiði til máltileinkunar.

Kolbrún Friðriksdóttir
„Námsframvinda í netnámi – gagnagrunnur Icelandic Online.“

Á sviði tölvustuddrar tungumálakennslu (CALL) hefur verið kallað eftir auknum rannsóknum á námshegðun nemenda þar sem byggt sé á gögnum úr vöktunarkerfi (e. tracking data) netnámskeiða. Slík gögn eru til þess fallin að veita upplýsingar um raunverulega notkun kennsluforrita (Fischer 2007, 2012). Í fyrirlestrinum verður greint frá fyrstu niðurstöðum rannsóknar á gagnagrunni Icelandic Online en innbyggt vöktunarkerfi hefur nú fylgt nemum vefnámskeiðanna sjö eftir í um áratug.

Virkni í netnámskeiðum hefur fengið aukna athygli með vaxandi framboði á MOOC-námskeiðum (massive open online courses) víða um heim en lágt hlutfall þeirra sem ljúka slíkum námskeiðum hefur vakið nokkra athygli. Í fyrirlestrinum verður virkni nema á Icelandic Online skoðuð og þá einnig hvort mismunandi námsumgjörð hafi áhrif m.t.t. virkrar þátttöku (sbr. Harker o.fl. 2005). Rædd verður námsframvinda þrenns konar hópa á Icelandic Online 1 og 2 í því ljósi, þ.e.: a) nema í blönduðu námi við HÍ, b) nema í fjarnámi utan HÍ og c) nema í opnum, almennum námskeiðum. Fyrstu niðurstöður úr gagnagrunni Icelandic Online benda til þess að námsumgjörð hafi áhrif á námsframvindu og verða mögulegir áhrifaþættir hugleiddir í fyrirlestrinum.      

Bjarni Benedikt Björnsson
„KLAKI, RABB og RITILL – aukið sjálfstæði nemenda.“

Nemendur í íslensku sem öðru/erlendu máli þurfa að takast á við fjölbreytileika íslensks orðaforða og íslenskrar málfræði. Miklu skiptir að þeir nái sem allra fyrst tökum á helstu beygingum og sjái með einföldum hætti beygingarflokk orðs, merkingu þess og hvaða orð bætast við orðaforðann smám saman. Þeir þurfa að öðlast sjálfstæði í náminu og öryggi í að beita íslensku máli og beygingum.

KLAKI, gagnagrunnur um grunnorðaforða íslensks máls, sýnir beygingar orða með einföldum kóðum, ásamt þýðingu, athugasemdum og hvar orðin koma fyrst fyrir í kennslubókunum Learning Icelandic og Íslenska fyrir alla 1-4. KLAKI hefur verið í þróun allt frá hausti 2013, og mælst mjög vel fyrir hjá nemendum. Uppsetningin gerir notendum kleift að raða orðalistum upp eftir ólíkum áherslum og þörfum. KLAKI auðveldar sömuleiðis kennurum að undirbúa kennslu og finna hvaða atriði leggja þarf áherslu á.

Í erindinu verður KLAKI kynntur, ásamt fleiri tilraunum sem reyndar hafa verið með nemendum Paris-Sorbonne. Annars vegar er það RITILL, persónuleg síða hvers nemanda til að æfa textaskrif á íslensku, fá athugasemdir kennara og leiðrétta textann, og hins vegar RABB, hljóðupptökur kennara með útskýringum á kennsluefninu. Sýnd verða ummæli nemenda um þessar nýjungar, reynslu af þeim lýst og áframhaldandi þróun rædd.


 

Málstofa 3. Milli mála


Magnús Hauksson
„Hvaða villur gera þýskumælandi íslenskunemar? Framlag til máljafnaðar íslensku og þýsku.“

Árið 1987 birti Svavar  Sigmundsson grein í tímaritinu Íslensku máli 9 þar sem hann benti á nokkur dæmi um villur sem íslenskunemendur sem höfðu Norðurlandamálin og ensku að móðurmáli gerðu alltítt í rituðum textum. Athugun Svavars náði ekki til þýskumælandi nemenda. Í þessum fyrirlestri verður gerð atlaga að því að skoða þær villur sem þeir gera og samhliða bera lítillega saman málkerfi íslensku og þýsku í samhengi við þau atriði sem villurnar gefa tilefni til að ræða. Litið verður til greinar Svavars til samanburðar. Fjallað verður um valin mikilvæg atriði ítarlegar en önnur. Þar er um að ræða ákveðni/óákveðni, óöryggi í notkun eignarfornafnsins "sinn" og eignarfalls persónufornafnanna í 3. persónu, í notkun forsetningarinnar "með" og hjálparsagna þó einkum sagnarinnar "verður". Dæmin eru sótt í ritunarverkefni prófúrlausna í námskeiðunum íslensku 3 og 4 og ritunarverkefni sem skilað hefur verið í sömu námskeiðum sem fyrirlesari hefur sjálfur haldið.

Spurningar um hvort móðurmálið hafi áhrif á hvernig millimál tungmálanemenda þróast og jafnframt hvort ávinningur sé að þvi að nýta vitund um líkindi og mismun málkerfanna við innlögn á vissum málfræðiatriðum munu óhjákvæmilega krefjast nokkurs rúms í fyrirlestrinum.

Þóra Björk Hjartardóttir
„Endursköpun samtala hjá tvítyngdum.“

Alþekkt er að tvítyngdir fara gjarnan á milli mála eftir aðstæðum og umræðuefni í samtölum við þá sem hafa sama bakgrunn eða skilja bæði málin.  En málvíxl geta verið mun fjölbreyttari og haft þann orðræðulega tilgang að ná fram tilteknum áhrifum umfram orðanna hljóðan.  Eitt slíkt er að víxla málum við endurfrásagnir, þ.e. í beinni ræðu þegar vitnað er til orða eða skoðana annarra. Bein ræða er oftast mörkuð í orðræðunni með raddbreytingum, tónfalli  eða sérstökum orðum sem gefa til kynna að nú skipti málnotandi um hlutverk og endurómi orð annarra. Tvítyngdir geta auk þess brugðið á það að skipta um mál til að tjá slík hamskipti. Ekki er þá endilega bein samsvörun á milli upprunamáls segðarinnar og þess máls sem málnotandi notar til að enduróma  hana.  Í erindinu verður grein fyrir því hvaða meðulum aldraðir tvítyngdir Danir beita í viðtölum við Dana og Íslending, sem hafa báðir vald á dönsku og íslensku, þegar þeir endurskapa samtöl og samskipti sín við aðra.

Þórhildur Oddsdóttir og Brynhildur Anna Ragnarsdóttir
„Hvernig falla námsbækur í dönsku í grunnskóla að aðalnámskrá og viðmiðum Evrópurammans (CEFR)?

Fjallað verður um greiningu á námsbókum sem notaðar eru við dönskukennslu í 7.-10. bekk í íslenskum grunnskólum og gefnar út af Námsgagnastofnun.

Ný aðalnámskrá fyrir grunnskóla tók gildi 2011/2013 gerir nokkuð aðrar kröfur til kennsluhátta og námsmats en áður hefur tíðkast. Námskráin tekur mið af Evrópska viðmiðunarrammanum sem er stigbundinn viðmiðunarrammi/-matskvarði sem nemandinn á að geta mátað kunnáttu sína við. Öllum færniþáttum er þar gert jafnhátt undir höfði og ýtt er undir að nemendur séu meðvitaðir um hæfni sína á hverjum tíma og framfarir.

Í máltileinkunarfræðum er lögð áhersla á að nemendur vinni markvisst með (þemabundinn) orðaforða og þjálfist í að beita honum bæði í ræðu og riti. Til að gera nemendum fært að ná tökum  á tungumálinu verður að gera ákveðnar kröfur til námsefnis. Stígandi verður að vera í námsefninu og viðfangsefnin þurfa að hæfa aldri, og stuðla að æskilegri og eðlilegri málnotkun þessa aldurshóps.

Greiningin tekur til samfellu og samræmis efnisþátta, orðaforða, og málnotkunar hverrar bókar sem ætluð er 7-10 bk og hvernig hún fellur að téðum hæfnimiðmiðum. 


 

Málstofa 4. Mál og menning


Daisy Neijmann
„Þýðing og hlutverk íslenskunnar fyrir Vestur-Íslendinga.“

Árið 2013 fór af stað víðáttumikið rannsóknaverkefni um „Mál, málbreytingar og menningarlega sjálfsmynd“, stýrt af Höskuldi Þráinssyni, þar sem þróun og hlutverk íslenskunnar í Vesturheimi er skoðað. Innan þessa verkefnis hef ég verið að kanna samspil máls og menningar í vestur-íslensku samhengi, meðal annars með því að taka viðtöl við Kanadamenn og Bandaríkjumenn af íslenskum uppruna, með það að markmiði að komast að því hvaða hlutverki íslenska gegnir í því að þróa og viðhalda menningarlegri sjálfsmynd. Í erindi mínu ætla ég að gera grein fyrir fyrstu niðurstöðum úr þessum viðtölum með hliðsjón af kenningum um upprunamál og sjálfsmynd (e. heritage language and identity), og fjalla um hvernig rannsóknir eins og þessar geta aukið skilning okkar á því hvernig best megi koma til móts við þarfir íslenskunema af íslenskum ættum í kennslu.

Eleonore Gudmundsson
„Skáldsaga í stað kennslubókar.“

Kennsluefni fyrir nemendur á frumstigi er nægilegt og fjölbreytt. En hvað með nemendur sem hafa komist yfir góða grunnþekkingu á málfræði og hafa sæmilegan orðaforða?

Við háskólann í Vín er það venjan að kenna nemendum á 3. misseri íslensku með hjálp skáldsögunnar „Ástin fiskanna“ eftir Steinunni Sigurðardóttur.

Á 4. misseri er svo lesin „Sandárbókin“ eftir Gyrði Elíasson.

Á 5. misseri eru lesnir kaflar úr nútímaskáldsögum („Þýðingar“) og u.þ.b. helmingur af bókinni „Draumalandið“ eftir Andra Snæ Magnason.

Í erindi mínu gæti ég greint frá

  • reynslu minni af notkun skáldsagna við kennslu
  • kennsluefni sem þarf að búa til með skáldsögunni
  • málfræðiæfingum sem hægt er að vinna upp úr skáldsögum
  • komu Steinunnar í „Nesti við Norðurá“ – upplestur við Vínarháskóla í júni 2014

Einnig má athuga hvernig lestur skáldsagna eykur skilning á textum almennt og á íslenskum bókmenntum sérstaklega og hvað nemendum finnst um þessa aðferð.

Gottskálk Jensson
„Hversdagslíf og klikkun í íslenskum samtímabókmenntum: Listin að kenna íslenska menningu á útlensku“

Þetta verður aðferðarfræðilegt spjall í ljósi reynslunnar af meistaranámskeiði sem kennt var í Kaupmannahöfn haustið 2011 og hét „Hversdagslíf og klikkun í íslenskum samtímabókmenntum“ (Hverdag og vanvid i moderne islandsk litteratur) og áframhaldandi hugleiðingar um annað samskonar námskeið sem við Erik Skyum-Nielsen lektor og þýðandi fyrirhugum að kenna næsta haust við sama skóla, „Vald og galdur í íslenskum bókmenntum“ (Magt og magi i islandsk litteratur). Einkum verður glímt við þá spurningu hvernig skynsamlegt sé að haga námskeiði um íslenskar bókmenntir við erlendan háskóla.