Verkefnastjóri á nafnfræðisviði

 

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum óskar eftir að ráða starfsmann í fullt starf á nafnfræðisviði stofnunarinnar tímabundið til tveggja ára frá og með 1. febrúar 2018.

Hlutverk nafnfræðisviðs er að sinna varðveislu (frum)gagna, söfnun og skráningu nafna, rannsóknum, ráðgjöf og þjónustu. Í því síðasttalda felst m.a. að veita aðgang að safnkosti nafnfræðisviðs, svara fyrirspurnum um nöfn og nafnfræði (einkum örnefni) og vinna samstarfsverkefni með fleiri aðilum, svo sem öðrum stofnunum, fyrirtækjum og fræðimönnum. Ýmis stór verkefni eru fram undan hjá sviðinu, m.a. þróun gagnagrunna til miðlunar og varðveislu safnkosts sviðsins og flutningur örnefnasafns í nýtt húsnæði.

Helstu verkefni eru að sinna daglegum þjónustuverkefnum, svo sem að svara fyrirspurnum einstaklinga og fyrirtækja um nöfn af öllu tagi. Að sinna samstarfi við aðrar stofnanir innanlands, t.d. Landmælingar Íslands, Þjóðskrá Íslands, Örnefnanefnd og sveitarfélög svo og aðila erlendis. Að halda utan um safnkost og skrár sviðsins. Að taka þátt í miðlunarverkefnum, t.d. veita upplýsingar um sviðið á vef Árnastofnunar. Að skipuleggja og undirbúa flutning í nýtt húsnæði.

 

Menntunar- og hæfniskröfur:

Umsækjendur skulu hafa meistarapróf í íslenskri málfræði eða annað sambærilegt háskólapróf. Aðrar hæfniskröfur:

  • áhugi á nafnfræði og nafnfræðirannsóknum,
  • góð tölvukunnátta er nauðsynleg og þekking á uppbyggingu og virkni gagnagrunna er æskileg,
  • framúrskarandi íslenskukunnátta (bæði í ræðu og riti),
  • þekking á einu öðru Norðurlandamáli er æskileg,
  • nákvæmni, agi og frumkvæði í vinnubrögðum,
  • rík skipulagshæfni og lipurð í mannlegum samskiptum.

 

Launakjör eru samkvæmt kjarasamningi Félags háskólakennara og fjármála- og efnahagsráðherra.

Umsækjendur skulu láta fylgja umsókn sinni vottorð um námsferil sinn og störf, svo og nöfn, símanúmer og netföng tveggja umsagnaraðila. Umsóknir skulu berast Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Árnagarði við Suðurgötu, 101 Reykjavík, eða í tölvupósti á póstfangið rakel.palsdottir@arnastofnun.is eigi síðar en 14. janúar 2018. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu í starfið liggur fyrir.

 

Nánari upplýsingar um starfið veita Emily Lethbridge (emily.lethbridge@arnastofnun.is) og Sigurborg Stefánsdóttir (sigurborg.stefansdottir@arnastofnun.is).