Alexanders saga – framandi efni fært í íslenskan búning

Alexanders saga er norræn þýðing á latneska kvæðabálkinum Alexandreis sem Gautier de Châtillon setti saman um 1180. Kvæðið er um það bil 5500 línur að lengd, ort undir sexliðahætti (hexametri) og skiptist í tíu bækur. Þar er lýst lífi og afrekum Alexanders mikla sem uppi var á fjórðu öld f. Kr. og lagði undir sig mörg lönd. Kvæðið náði fljótt fádæma vinsældum í Evrópu á miðöldum og öðlaðist snemma sess sem skólatexti.

Alexanders saga AM 519 bl. 24r. Ljósmyndari: Jóhanna Ólafsdóttir. Alexanders saga, skinnhandrit frá um 1280. AM 519 a bl. 24r. Hægt er að stækka myndina. Norræna þýðingin var gerð um miðbik 13. aldar og þýðandinn hefur hlotið verðskuldað lof fyrir það hve vel honum tókst að miðla hinu framandi efni yfir á óbundið mál þjóðtungunnar og fella það að frásagnarmáta innlendrar sagnahefðar. Meðal annars hefur verið bent á samsvörun milli Alexanders og Gunnars í einu áhrifamesta atriði Njáls sögu þegar Gunnar tekur örlagaríka ákvörðun um að snúa aftur í stað þess að hlíta útlegðardómi. Tilsvar hans um fegurð Fljótshlíðar þykir minna á þessi orð Alexanders sögu: „Að komanda morgni gengur konungur á fjall eitt hátt og sér þaðan yfir landið. Þar mátti hann alla vega sjá frá sér fagra völlu, bleika akra, stóra skóga, blómgaða víngarða, sterkar borgir.“

Öfugt við meiripartinn af  íslenskum miðaldabókmenntum, þar sem höfundar eða þýðendur eru nafnlausir og ókunnir, telja menn sig vita deili á þýðanda Alexanders sögu (enda þótt nýrri rannsóknir hafi vakið efasemdir um að hve miklu leyti sami maður hafi þýtt allt verkið). Í handritinu AM 226 fol., sem geymir safn þýddra sagnarita, þar á meðal Alexanders sögu og Gyðinga sögu, segir svo við lok þeirrar síðarnefndu: „úr latínu og í norrænu sneri Brandur prestur Jónsson er síðan var biskup að Hólum og svo Alexandro magno [þ.e. Alexander mikla] eftir boði virðulegs herra, herra Magnúsar kóngs, sonar Hákonar kóngs gamla“. Brandur Jónsson (d. 1264) var frá Svínafelli í Öræfum, kominn af mikilli höfðingjaætt. Hann gekk í ágústínaklaustrið í Þykkvabæ og varð þar ábóti árið 1247. Árið 1262 var hann kjörinn til biskups á Hólum. Hann sigldi þá til Noregs til þess að taka við vígslu og dvaldist þar um veturinn. Sé hann þýðandi Alexanders sögu, hefur hann væntanlega innt þýðingarstarfið af hendi meðan á Noregsdvölinni stóð.

Varðveisla sögunnar vitnar um vinsældir hennar, því hún er til í mörgum handritum, bæði frá miðöldum og síðari tímum. Skinnhandritið AM 519 a 4to er elst þeirra og varðveitir texta sögunnar nánast í heild sinni (tvö blöð af 39 hafa týnst). Það talið ritað í kringum 1280 svo að einungis um tveir áratugir standa milli þess og frumþýðingarinnar. Skrifarinn er Íslendingur, en í málfarinu gætir mjög norskra áhrifa.

Ekkert er vitað um feril handritsins fram til ársins 1594 en þá hefur það verið í Noregi eins og fram kemur á fyrstu síðu þess, en þar hefur Jacob Pederssøn, embættismaður í Björgvin, skrifað vísur þar sem hann segir til nafns og ritar einnig ártalið. Eftir hans dag virðist handritið hafa verið í höndum þriggja klerka í nágrenni Björgvinjar sem allir tengdust fjölskylduböndum. Einn þeirra, Gert Miltzow á Voss, lánaði það Þormóði Torfasyni árið 1685 og þannig hefur Árni haft spurnir af því. Árni eignaðist handritið fjórum árum síðar og fór með það til Íslands árið 1702, en vegna ótryggs ástands meðan á ófriði Dana og Svía stóð skildi hann það eftir þegar hann fór alfarinn þaðan 1712, og á Íslandi var það þangað til árið 1721 að það var sent aftur til Kaupmannahafnar, þar sem það er enn.

Alex Speed Kjeldsen