Álitsgerð 1987

Húsið að Þingholtsstræti 29. Álitsgerð
Hörður Ágústsson og Leifur Blumenstein
6. júní 1987
 

Byggingarsögulegt samhengi.

Timburhús á bernskuskeiði íslensku kaupstaðanna voru einlyft, lágreist, með háu risi, stóðu á lágum grunni, klædd slagþili á þaki og veggjum, bikuð en með hvítum gluggum ekki ósjaldan með hlerum fyrir. Þau voru dönsk að uppruna, sum jafnvel tilsniðin í Kaupmannahöfn, en íslenskir smiðir komust þó fljótt upp á smíðalagið og aðhæfðu þau innlendum aðstæðum. Embættismönnum og kaupmönnum nægði ekki þessi gerð til lengdar, þeir létu reisa sér veglegri timburhús, sem sniðin voru eftir steinhúsum þeim er dönsk stjórnvöld komu hér upp á ofanverðri 18. öld og kalla má eftirhreitur baroktímans. Þau voru veglegri, prýdd klassísku skreyti í ríkara mæli innra sem ytra, en það sem einkenndi þau einkum var gaflsneiðing þaks. Þannig var staðan fram undir 1870.

Í kjölfar fulls verslunarfrelsis, vaxandi þilskipaútgerðar og batnandi veðurfars og þar með aukinni hagsæld í sveit og bæ óx fjölbreytni húsgerðanna, samfara aukinni menntun íslenskra húsasmiða, sem nú tóku að móta meir en áður íslenska byggingu í kaupstöðum landsins. Á sjöunda og áttunda áratug 19. aldar voru það einkum þrír húsameistarar sem mótuðu hérlendis nýja húsgerð í anda hinnar nýklassísku hefðar meginlandsins. Það voru þeir Jón Christófer Stephánsson, Tryggvi Gunnarsson og Helgi Helgason. Starfsvettvangur Helga var hér í Reykjavík, þar sem hann mótaði nýja gerð húsa. Þau voru tvílyft, með lágu risi, meiri lofthæð en tíðum þekktist, á hærri sökklum, prýdd klassísku skreyti svo sem yfir dyrum og gluggum, flatsúlum og útsniðnum vindskeiðum. Segja má að hin nýklassíska stefna, sem Helgi Helgason boðaði hér fyrstur manna, réði ríkjum fram yfir aldamótin síðustu og raunar lengur með þeim tilbrigðum þó er nú skal segja frá.

Húsform það, sem við tók og mestan svip hefur sett á elsta hluta íslenskra kaupstaða, var í upphafi hvorki mótað af dönskum eða íslenskum húsameisturum heldur norskum. Á seinasta áratug 19du aldar tóku norskir hval- og síldarútvegsmenn að setjast að á Íslandi, einkum á Austfjörðum og einnig fyrir vestan. Þeir fluttu með sér tilhöggvin timburhús í svokölluðum sveitserstíl og reistu hér yfir sig og sína. Norski sveitserstíllinn, sem rót á í hinum nýklassíska, spratt upp þar í landi í kjölfar mikillar atvinnuuppbygginar og vélvæðingar í trésmíðaiðnaðinum. Hús þessi voru verksmiðjuvara og eins og slíkri framleiðslu sómdi fylgdu henni sýnishornaskrár. Íslenskir embættismenn, sem löngum höfðu forystu í híbýlamenningu, voru fljótir að átta sig á hvaðan vindurinn blés og pöntuðu um og eftir aldamótin síðustu nokkur hús af þessari gerð frá Noregi og reistu hér. Líkt og í Noregi naut sveitserstíllinn strax mikilla vinsælda.

Einkenni norsku sveitserhúsanna voru framar öllu hár og vel gerður sökkull, mikið þakskegg, portið undir þakkvert og sérkennilegt og mikið skreyti. Flest voru þau stokkhús, vel þétt og vönduð að allri gerð. Til lengdar höfðu Íslendingar ekki efni á að reisa svo efnismikil timburhús, ekki einu sinni þeir auðugustu hvað þá almenningur í landinu. Hugur manna stóð þó engu að síður til þessarar húsgerðar, hana skyldu þeir fá hvað svo sem það kostaði. Sé viljinn fyrir hendi er vandinn leystur, og segja má að lausnin hafi komið úr óvæntri átt. Um og eftir 1880 hófst sauðasalan svonefnda til Englands. Í kjölfarið komu ný verslunarsambönd og nýjar vörur m.a. nýtt byggingarefni, bárujárnið. Í slíku regnplássi, sem Ísland er að meginhluta og baráttan við þrálátan húsleka langvinn, þótti mönnum sem þeir hefðu himin höndum tekið þar sem bárujárnið var. Það gerði húsin vatnsþétt, það minnkaði eldshættu utan frá og það var mun ódýrara en timbrið. Íslenskir húsasmiðameistarar héldu einkennum norsku sveitserhúsanna, háum sökkli, porti undir þakkverk, íburðarmiklu snikkaraverki umhverfis dyr, glugga og þakbrúnir en settu bárujárn í timburklæðningar stað. Hið bárulagaða járn fór einnig á þökin, þar sem súðklæðning og skífa höfðu verið á áður. Ekki er svo að skilja sem timburklæðningu hafi alfarið verið hafnað. Yfirleitt voru norsku húsin tíbyrð, en ytri klæðningin var þykk, velhefluð, plægð og strikuð og því mjög dýr. Réttara er því að segja að ytri klæðningunni hafi verið hafnað. Yfirleitt voru og eru bárujárnshúsin timburklædd undir járnhlífinni en sú klæðning var óvandaðri og mun kostnaðarminni. Segja má með nokkrum rétti að hér hafi norski sveitserstíllinn verið aðhæfður íslenskum aðstæðum með enskri hjálp. Fyrstu tvo áratugi 20. aldar varð þessi norsk-íslenska húsagerð allsráðandi ekki einungis í bæjum heldur víða úti á landsbyggðinni, einkum sunnanlands þar sem jarðskjálftarnir miklu árið 1896 dæmdu torfbæinn að mestu úr leik. Húsið við Þingholtsstræti 29 er eitt af fyrstu norsku sveitserhúsunum sem hingað voru flutt tilhöggin. Jón Magnússon ráðherra pantaði það frá Noregi og lét reisa 1899. Því miður er ekki vitað frá hvaða smiðju það er komið, enda málið ekki fullkannað. Segja má því að húsið við Þingholtsstræti 29, ásamt nokkrum öðrum, sem sum eru reyndar horfin, hafi valdið straumhvörfum í íslenskri byggingarsögu. Það hefur þó þá sérstöðu að vera það eina sem er algjörlega í upprunalegri gerð, auk þess sem húsið fellur vel að umhverfi sínu. Á sínum tíma lögðum við Þorsteinn Gunnarsson og undirritaður til að Þingholtsstrætið allt yrði friðað. Enda þótt sú tillaga hafi ekki hlotið lögformlega samþykkt hefur í raun verið farið eftir henni. Varðveisla Þingholtsstrætis 29 yrði þá enn frekari viðbót við þá ætlan. Fagnar því engin meir en sá sem hér ritar.


Ástand hússins:

Eins og fyrr segir er það hús, sem hér um ræðir, eitt af þeim fáu sem sloppið hafa undan kló listblindunnar og er að mestu í upprunalegri gerð. Að vísu hafa n[N]orðmenn aldrei ætlað að setja bárujárn á tvær hliðar þess, en engin goðgá er að halda að það hafi fljótlega verið sett ef þá ekki strax við byggingu, samkvæmt innlendri hefði. Dæmi er um slíkt utar í götunni. Hugsanlegt er og að ytri gluggar á austurhlið séu yngri en húsið. Að öðru leyti er ekki annað að sjá en húsið sé í upprunalegri gerð utan sem innan. Ástand hússins er gott. Ekki er við fyrstu athugun að sjá að nokkur fúi sé í því og það virðist vera þétt. Að vísu er farið að sjá á málningu úti og allmargir ryðdropar sjást á járni en það verður að telja eðlilega fyrningu.

 

Frumverkáætlun:

Það sem þarf að gera er í fyrsta lagi að mála allt húsið að utan. Samfara því þarf að dytta að gluggum og járnum þeirra. Einkum þarf að lagfæra kjallaraglugga vegna rangs frágangs við neðri brún. Hugsanlega er neðri hluti karms fúaskemmdur á köflum og þarf þá að skipta um hann. Kítta þarf glerrúður og skipta um rennur. Inni þarf að mála glugga og hurðir, gera við pappa, veggfóðra og dúkleggja. Alls óvíst er hvort færa þurfi ofna til en leggja verður nýjar rafmagnsleiðslur í allt húsið. Um kostnað er lítið hægt að segja eins og er en málningin utan mun kosta um 220 þús. krónur.

Hér er aðeins um frumathugun að ræða en þegar tími vinnst til og húsið hefur verið athugað nánar og rætt við viðkomandi verktaka má fara nær um heildar kostnað. Um húsgögn og innanskipan þeirra verður nánar rætt þegar stjórnin hefur betur gert sér grein fyrir notkun hússins. Leifur Blummestein hefur verið með í ráðum við athugun á húsinu og því setur hann nafn sitt undir hér.


Reykjavík, 6. júní 1987.
Hörður Ágústsson
Leifur Blumenstein.


Til stjórnar Stofnunar Sigurðar Nordals.