Opinber fyrirlestur um Heimskringlu

Þjóðarbókhlöðunni
12. maí 2004

Dr. Jon Gunnar Jørgensen, prófessor við Óslóarháskóla, flytur opinberan fyrirlestur um varðveislu Heimskringlu, í Þjóðarbókhlöðunni, kl. 16.15, miðvikudaginn 12. maí 2004.

Fyrirlesturinn er í boði Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns og Stofnunar Sigurðar Nordals. Hann verður fluttur á íslensku og nefnist: „Heimskringla - Frá Íslandi til Noregs og heim aftur.“

Fyrstu þýðingar íslenskra konungasagna á erlenda tungu urðu til í Noregi á 16. öld. Danir gáfu þær út á prenti 1594 (Den norske krönike) og 1633 (Norske kongers krönike). Þessar útgáfur höfðu geysimikil áhrif í Skandinavíu á 17. öld en áhrifin náðu einnig til Íslands. Áhugi á konungasögum vaknaði aftur hjá Íslendingum en þar sem fátt var orðið um góð handrit á landinu tóku þeir upp á að þýða textann úr prentuðu útgáfunum aftur á íslensku. Sýnd verða nokkur dæmi um slík handrit úr Landsbókasafni Íslands - Háskólabókasafni.

Jon Gunnar Jørgensen lauk cand. phil. prófi frá Óslóarháskóla árið 1983. Hann varði doktorsritgerð sína um Heimskringluhandritið Kringlu, sem nú er glatað, við sama háskóla árið 2000. Hann er nú prófessor við skólann. Rannsóknir hans hafa einkum beinst að textum norrænna miðaldabókmennta og útgáfu þeirra, einkum konungasagna. Jafnframt hefur hann þýtt íslenskar samtímabókmenntir á norsku.

Allir eru velkomnir.

Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn, Stofnun Sigurðar Nordals