ISLEX

Orðabók Háskólans         Dansk sprog og litteraturselskab         Háskólinn í Bergen         Háskólinn í Gautaborg         Fróðskaparsetur Færeyja

Fara í ISLEX-orðabókina:

islex.hi.is (íslensk heimasíða)
islex.dk (dönsk heimasíða)
islex.no (norsk heimasíða)
islex.se (sænsk heimasíða)

Íslensk-norrænar orðabækur á vefnum

Aðalritstjóri: Þórdís Úlfarsdóttir
Verkefnisstjóri: Halldóra Jónsdóttir

ISLEX er orðabókarverk sem er unnið á vegum Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum í samstarfi við háskóla- og rannsóknarstofnanir á Norðurlöndum: Det Danske Sprog- og Litteraturselskab í Kaupmannahöfn, Institutt for lingvistiske, litterære og estetiske studier (LLE) við háskólann í Bergen og Institutionen för svenska språket við Gautaborgarháskóla. Orðabók milli íslensku, dönsku, norsku og sænsku var opnuð á vefnum í nóvember 2011. Fróðskaparsetur Føroya í Þórshöfn varð aðili að samstarfinu árið 2011 og stefnt er að því að opna íslensk-færeyska orðabók seint á árinu 2012.

Verkið hefur verið fjármagnað með opinberu fé í öllum þátttökulöndunum auk styrkja úr norrænum sjóðum.

Um verkið
ISLEX hefur að geyma um 50.000 íslensk uppflettiorð með þýðingum á sænsku, norsku og dönsku. Verkið endurspeglar íslenskt mál og málnotkun samtímans. Við ritstjórnina er notaður veftengdur gagnagrunnur sem er sérstaklega hannaður fyrir verkefnið og tryggir að vinna megi að orðabókinni í öllum fjórum löndunum samtímis. Í ISLEX eru kostir rafrænnar miðlunar látnir njóta sín og orðabókarlýsingin er studd myndefni, hreyfimyndum og hljóðdæmum (sem eru væntanleg 2012).

ISLEX-orðabókin er fyrsta rafræna orðabókin sem tengir saman mörg norræn mál. Hún hefur að geyma um 50.000 flettur og þýðingar á þeim. Orðabókin lýsir íslensku nútímamáli þar sem áhersla er lögð á að sýna fjölbreytileg orðasambönd, fasta orðanotkun og dæmi með þýðingum á markmálin.

Við ritstjórnina er notaður veflægur gagnagrunnur sem er sérstaklega hannaður fyrir verkefnið. Höfundur og hönnuður gagnagrunnsins er Ragnar Hafstað. Hann hefur einnig séð um forritun fyrir verkefnið og önnur tæknileg mál. Eingöngu er notaður opinn hugbúnaður við ISLEX-verkefnið.

ISLEX hentar vel til að fá innsýn í samhengi íslensku við önnur Norðurlandamál. ISLEX er ætlað að þjóna þörfum ólíkra notendahópa. Sem íslensk-skandinavísk orðabók miðast hún annars vegar við þarfir sænskra, norskra og danskra notenda, m.a. vegna þýðinga úr íslensku og náms og kennslu í íslensku á Norðurlöndunum. Hins vegar nýtist hún íslenskum notendum sem vilja finna viðeigandi orðalag á tilteknu markmáli. ISLEX felur í sér mikilvægt framlag til þess að styrkja menningartengsl og efla málskilning á milli norðurlandaþjóðanna.

Ávarp Svavars Gestssonar við opnun ISLEX í Gautaborg, 23. nóvember 2011 (pdf, 343k)