ISLEX


Orðabók Háskólans        Háskólinn í Gautaborg        Háskólinn í Bergen        Dansk sprog og litteraturselskab 


Íslensk-norrænar orðabækur á vefnum

Verkefnisstjóri: Halldóra Jónsdóttir
Aðalritstjóri: Þórdís Úlfarsdóttir

ISLEX er orðabókarverk sem er unnið á vegum Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum (áður Orðabókar Háskólans) í samstarfi við háskóla- og rannsóknarstofnanir á Norðurlöndum: Det Danske Sprog- og Litteraturselskab í Kaupmannahöfn, Institutt for lingvistiske, litterære og estetiske studier (LLE) við háskólann í Bergen og Institutionen för svenska språket við Gautaborgarháskóla. Þetta er sex ára verkefni og stefnt er að því að ljúka verkinu á árinu 2011 þegar Háskóli Íslands fagnar 100 ára afmæli sínu. Verkið er fjármagnað með opinberu fé í þátttökulöndunum auk styrkja úr norrænum og innlendum sjóðum.

Um verkið
ISLEX hefur að geyma um 50.000 íslensk uppflettiorð með þýðingum á sænsku, norsku og dönsku.

Verkið endurspeglar íslenska málnotkun samtímans. Við afmörkun orðaforða, merkingargreiningu og val notkunardæma er tekið mið af safni rafrænna texta frá síðustu árum (ca. 50 milljónir lesmálsorða) sem safnað hefur verið hjá Orðabók Háskólans og síðar hjá SÁ.

Orðabókin á að nýtast öllum þeim sem þurfa á íslensk-norrænum orðabókum að halda.  Sérstök áhersla er lögð á að sinna þörfum sænskra, norskra og danskra notenda, ekki síst þýðenda úr íslensku á skandinavísku málin.

Við ritstjórnina er notaður gagnagrunnur sem er hannaður sérstaklega fyrir verkefnið. Gagnagrunnurinn er veftengdur og getur ritstjórnarvinnan því farið fram samhliða í öllum löndum.

Orðabókin er fyrst og fremst hugsuð til birtingar á vefnum. Það form býður upp á nýjar aðferðir við framsetningu efnisins, og má þar nefna hljóðdæmi, myndskýringar og hreyfimyndir. Einnig er mögulegt að birta ítarlegri upplýsingar en kostur er á í prentaðri bók. Loks verður unnt að bjóða upp á margvíslega leitarmöguleika og tengingar milli efnisþátta sem ekki standa til boða í hefðbundnum orðabókum.

Auk þess að setja fram vandaðar þýðingar eða skýringar á einstökum orðum, er lögð meiri áhersla á að lýsa merkingu og notkun ýmiss konar orðasambanda (fraseologi) en hingað til hefur tíðkast í íslensk-erlendum orðabókum.

Samhliða orðabókarvinnunni verður til nýr íslenskur orðabókastofn. Í gagnagrunninum verður líka til samanburður á norrænu málunum sem getur orðið dýrmætur efniviður í önnur fræðileg og hagnýt verkefni.

Efni orðabókarinnar

 • Uppflettiorð
  Orðaforðinn í verkinu er um 50.000 orð. Miðað er við að íslenskt nútímamál fái að njóta sín sem best en nokkuð er einnig um orð úr eldra máli, m.a. fornmáli, sem líklegt er að notendur kunni að rekast á. Sum orð útheimta alfræðilegar skýringar á markmálunum, t.d. Alþingi, þorrablót og laufabrauð, en þar er um að ræða séríslensk fyrirbæri sem ekki eiga sér beinar samsvaranir á öðrum málum.
 • Beygingar
 • Beygingar orða eru sýndar í heild í  ISLEX-orðabókinni. Það er gert með tenglum, þannig að sé t.d. notandinn staddur í flettunni köttur getur hann smellt á tengil og opnast þá nýr gluggi með fullu beygingardæmi orðsins. Beygingin er sótt til Beygingarlýsingar íslensks nútímamáls, gagnagrunns með beygingum um 270 þúsund íslenskra orða sem komið hefur verið upp hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
 • Orðasambönd
 • Orðasambönd skipa veigamikinn þátt í orðabókarverkinu og eru nú þúsundir algengra orðasambanda í flettunum. Dæmi um slík orðasambönd eru herða upp hugann, vera gull af manni og hreyfa hvorki hönd né fót. Meirihluti fastra orðasambanda er valinn með hliðsjón af Stóru orðabókinni um íslenska málnotkun (JPV forlag 2005) eftir Jón Hilmar Jónsson með leyfi höfundar.
 • Myndefni
  Í ISLEX-orðabókinni verða þúsundir mynda auk hreyfimynda. Myndunum er ætlað að skerpa merkingu orðanna og auka upplýsingagildið þeirra, auk þess sem þær prýða orðabókina stórlega. Samið hefur verið við listamanninn Jón Baldur Hlíðberg um afnot af myndum hans  úr ríki náttúrunnar, einkum plöntum, fiskum, fuglum og öðrum dýrum.
  Mynd af gullkarfa (teikning eftir Jón Baldur Hlíðberg)  Mynd af maríustakki (teikning eftir Jón Baldur Hlíðberg)  Mynd af berserkjasveppi (teikning eftir Jón Baldur Hlíðberg) Mynd af tígrisdýri (teikning eftir Jón Baldur Hlíðberg)  Mynd af kríu (teikning eftir Jón Baldur Hlíðberg)

Sýnishorn af myndum eftir Jón Baldur Hlíðberg (www.fauna.is)

 • Þýðingar á dönsku, norsku og sænsku
  Í ISLEX-orðabókinni eru þýðingar á dönsku, norsku (bæði nýnorsku og bókmáli) og sænsku. Þegar notandinn flettir upp orðum á vefnum getur hann stillt á hvaða máli þýðingarnar birtast, jafnvel getur hann séð þýðingar á öllum málunum samtímis.

Gagnagrunnurinn
Við ritstjórnina er notaður veflægur gagnagrunnur sem er sérstaklega hannaður fyrir verkefnið. Leitast er við að láta möguleika miðilsins njóta sín og hér eru því að finna ýmis nýmæli í íslenskri orðabókargerð, t.d. litmyndir, hreyfimyndir, framburð orða og önnur hljóð. Mótun gagnagrunnsins hefur haldið áfram samhliða ritstjórnarvinnunni, og einnig er búið að hanna notendaviðmót til birtingar á orðabókinni.

Höfundur og hönnuður gagnagrunnsins er Ragnar Hafstað. Hann hefur einnig séð um forritun fyrir verkefnið og önnur tæknileg mál. Eingöngu er notaður opinn hugbúnaður við ISLEX-verkefnið.

Staða verkefnisins
Að jafnaði vinna fimm manns í um þremur stöðugildum við ISLEX hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Þýðingarvinnan fer fram samhliða því starfi og eru þýðendur í nánu samstarfi við ritstjórn ISLEX á Íslandi. Samráðsfundir eru haldnir reglulega með ritstjórnum og verkefnisstjórnum frá öllum þátttökulöndunum fjórum. Verkefnið er komið langt á veg og er stefnt að því að ISLEX verði öllum opið á vefnum á miðju ári 2011.

Starfsmenn verkefnisins

Ísland
 • Þórdís Úlfarsdóttir, aðalritstjóri
 • Halldóra Jónsdóttir, verkefnisstjóri
 • Gunnlaugur Ingólfsson
 • Ágústa Þorbergsdóttir
 • Aðalsteinn Eyþórsson (til 2007)
 • Jón Hilmar Jónsson, hefur annast merkingarflokkun orðaforðans o.fl.
 • Guðrún Kvaran og Ásta Svavarsdóttir hafa komið að ritstjórn ákveðinna þátta verkefnisins
Danmörk
 • Aldís Sigurðardóttir, þýðandi
 • Liisa Teilgaard, þýðandi
 • Kjeld Kristensen, í verkefnisstjórn
 • Lars Trap-Jensen, í verkefnisstjórn
Noregur
 • Ragnhild Svellingen, þýðandi (til 2009)
 • Margunn Rauset, þýðandi
 • Kjersti Lea, þýðandi
 • Helge Sandøy, í verkefnisstjórn
 • Þorsteinn Indriðason, í verkefnisstjórn
Svíþjóð
 • Anna Hannesdóttir, þýðandi, í verkefnisstjórn
 • Håkan Jansson, þýðandi
 • Ylva Hellerud, þýðandi
Samráðsnefnd stofnana
 • Guðrún Kvaran (Íslandi)
 • Jón Hilmar Jónsson (Íslandi)
 • Jørn Lund (Danmörku)
 • Helge Sandøy (Noregi)
 • Þorsteinn Indriðason (Noregi)
 • Bo Ralph (Svíþjóð)
Styrkir
Auk opinberra fjárveitinga hefur ISLEX-verkefnið notið styrkja úr innlendum og norrænum sjóðum. Verkefnið hefur þrisvar fengið styrk frá Nordplus Sprog. Árið 2007 veitti Styrktarsjóður Baugs Group styrk til að efla myndefni orðabókarinnar og 2007 fékkst einnig styrkur frá Fondet for Dansk-Norsk Samarbejde.
 
Fondet for Dansk-Norsk Samarbejde