Ættartölusafnrit séra Þórðar Jónssonar í Hítardal I-II

Fyrra bindi er fyrsta heildarútgáfa á Ættartölusafnriti sem séra Þórður Jónsson í Hítardal á Mýrum tók saman 1645–1660 eftir frásögnum og eldri ritheimildum. Textinn er prentaður með nútímastafsetningu eftir handritum sem fara næst glötuðum frumgerðum. Séra Þórður fæddist um 1609, lærði í Kaupmannahöfn, var prestur í Hítardal frá 1630 til æviloka 1670. Kona hans var Helga, dóttir Árna Oddssonar lögmanns á Leirá. Þau hjón voru vensluð íslenskum fyrirmönnum á sinni tíð sem ættir eru raktar að og frá í safnritinu: biskupum, hirðstjórum, lögmönnum, sýslumönnum, próföstum, prestum, skólameisturum, lögréttumönnum og efnabændum. Meginefnið eru síendurtekin nöfn íslenskra embættismanna, áa þeirra, maka, niðja og jarða, og inn í milli er skotið merkilegum smásögum af mannraunum, ástafari, arfadeilum o. s. frv. Ættartölusafnritið er samtíðarheimild um ættir, afkomendur og búsetu fjölda Íslendinga á fyrri hluta 17. aldar. Af því spruttu yngri gerðir auknar efni um nýjar kynslóðir og frá þessum ritum er runnin ómæld þekking í prentuð ættfræðirit á nútíma. Í seinna bindi er nafnaregistur textaútgáfunnar og ritgerð sem er frumrannsókn á uppruna, efni og tengslum helstu ættartöluhandrita síðari alda og bókiðju séra Þórðar í Hítardal, hann er kunnastur fyrir Landnámugerð sína, Þórðarbók Landnámu. Hér er um að ræða stórmerka frumheimild fyrir íslenskar ættfræðirannsóknir.