Flýtileiðir á vef Stofnun íslenskra fræða:


Sigurður Nordal

Sigurður Nordal (1886-1974)


Sigurður Nordal var einn áhrifamesti fræðimaður þessarar aldar á sviði íslenskra fræða. Með ritum sínum um íslenskar bókmenntir fyrri og síðari alda, fjölda greina og fyrirlestra auk kennslu sinnar við Háskóla Íslands mótaði hann skilning og túlkun bókmennta og menningar Íslendinga frekar en flestir aðrir Íslendingar.
Áhrif Sigurðar náðu langt út fyrir raðir fræðimanna, alla ævi var hann áberandi á sviði íslenskrar menningarumræðu og hann var virtur og viðurkenndur meðal fræðimanna á sviði íslenskra og norrænna fræða um heim allan.
Hann var einn forvígismanna þeirrar stefnu í rannsóknum íslenskra miðaldabókmennta sem kennd er við „íslenska skólann“ og hefur verið áhrifamikill í miðaldarannsóknum allt fram á þennan dag.

Á þessari síðu er að finna stutt æviágrip Sigurðar, skrá um nokkur rit og greinar um Sigurð og verk hans auk efnisyfirlits nýrrar heildarútgáfu á verkum hans. Einnig er hér að finna grein eftir Kristján B. Jónasson rithöfund, „Í miðjum straumi menningar“. Þar gerir Kristján grein fyrir stöðu Sigurðar sem menningargagnrýnanda og sérkennum hans sem túlkunarfræðings. Í grein Kristjáns segir m.a.: „Á þröskuldi íslensks nútímasamfélags tókust á ólík viðhorf um hver ætti að vera hugmyndalegur grundvöllur hinnar nýju þjóðfélagsmyndar sem iðnvæðing og innlend fjármagnsmyndun var að skapa og Sigurður hafði af því stórar áhyggjur að allt það sem prýddi íslenska menningu myndi fara forgörðum í þeim átökum … [hann vildi] leita út fyrir ramma samtímaumræðunnar og skyggnast eftir frumformum þess sem var sannanlega íslenskt. Grunninn […] fann hann í miðaldabókmenntunum og túlkun þeirra var í hans augum lykill að mótun nútímasamfélags á Íslandi.“