Anfinnur Johansen

Færeysk mannanafnalöggjöf


Hinn 16. október 1992 gengu fyrstu færeysku mannanafnalögin í gildi. Fram að þeim tíma var gildandi nafnaréttur í Færeyjum einkum danska skírnartilskipunin frá 30. maí 1828 og dönsku nafnalögin frá 1904. Samkvæmt 1. grein fyrstu færeysku nafnalaganna skal barn hafa fengið nafn áður en það verður hálfs árs. Enginn má bera fleiri en tvö eiginnöfn og þau verða að samræmast færeyskri málnotkun. Auk þess má fólk aðeins hafa eitt millinafn og eitt kenninafn. Nýjung í lögunum var að föður- og móðurnöfn voru innleidd að nýju en þau höfðu verið aflögð með skírnartilskipuninni frá 1828. Hinn 1. júlí 2002 gengu önnur færeysku nafnalögin í gildi. Samkvæmt þeim er hægt að hafa þrjú eiginnöfn. Fólk getur fengið undanþágu frá mállegu reglunum þegar börn eru nefnd eftir ættingjum sínum. Lands¬tjórnin setur með auglýsingu nánari reglur um undanþágurnar. Í fyrstu auglýsingunni var kveðið svo á að hægt væri að fá undanþágu frá mállegu reglunum ef börn eru nefnd eftir foreldrum sínum, öfum eða ömmum. Næsta auglýsing gekk í gildi 11. desember 2004. Með henni voru reglurnar um það að nefna börn eftir ættingjum víkkaðar mjög mikið út; nú gilda þær þegar nefnt er eftir systkinum, foreldrum, öfum eða ömmum, langöfum eða langömmum, föður- eða móðursystkinum, systkinabörnum og afa- eða ömmusystkinum. Hinn 30. apríl 2007 gengu þriðju færeysku mannanafnalögin í gildi. Munurinn á þeim og lögunum frá 2002 er einkum sá að ákvæði auglýsingarinnar frá 11. desember 2004, um það þegar börn eru nefnd eftir ættingjum, eru nú orðin hluti laganna.