Olle Josephson

Um framkvæmd norrænu málstefnuyfirlýsingarinnar


Hinn 1. nóvember 2006 undirrituðu norrænu menntamálaráðherrarnir skjal með yfirskriftina Deklaration om nordisk språkpolitik [Yfirlýsing um norræna málpólitík]. Yfirlýsingin var birt og um hana fjallað í Språk i Norden 2006 og 2007. Þeir sem vilja kynna sér hana nánar geta fundið hana þar eða á veffanginu www.norden.org/sprak.

Þessi grein fjallar sem sé ekki um efni yfirlýsingarinnar. Þó er rétt að taka fram að yfirlýsingin gefur gott tækifæri til að leggja grunn að norrænu tungumálasamstarfi og norrænni málpólitík um langa framtíð. Þar eru tiltekin málleg grundvallarréttindi allra Norðurlandamanna og sett fram málpólitísk meginmarkmið. Ekki er aðeins um að ræða sérnorræn markmið, t.d. að „allir Norðurlandamenn geti átt samskipti, einkum á einhverju skandinavísku máli“. Mályfirlýsingin tilgreinir einnig réttindi allra Norðurlandamanna eins og „að varðveita og efla móðurmál sitt og sitt þjóðlega minnihlutamál“ eða markmið á borð við „að allir Norðurlandamenn hafi mjög góða kunnáttu í a.m.k. einu tungumáli sem notað er alþjóðlega og góða kunnáttu í einu erlendu máli til viðbótar“. Eins og tekið er fram í mályfirlýsingunni geta Norðurlönd orðið mállegt forystusvæði – ef okkur auðnast að koma hinum fögru fyrirheitum yfirlýsingarinnar í verk í stjórnmálum hversdagsins.