[Mynd 1]

Góss Árna

 

Veturinn 2011-12 stóð Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum fyrir erindaröð í Þjóðmenningarhúsinu um íslensk handrit í tilefni af því að handritasafn Árna Magnússonar var tekið á varðveisluskrá UNESCO – Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Erindin voru haldin undir yfirskriftinni „Góssið hans Árna“ og koma nú út á bók. Handritin sem fjallað er um eru frá mismunandi skeiðum í sögu Íslands og veita margvíslega innsýn í líf og hugðarefni Íslendinga á fyrri öldum. Í þeim má finna dramatískar sögur um ævi og örlög Grettis Ásmundarsonar, Gunnars á Hlíðarenda og fleiri hetja, áhrifamiklar frásagnir af dýrlingum, dýrt kveðin helgikvæði, þulur, sálma og tvísöngslög, lagasöfn, dóma og myndskreytta norræna goðafræði. Hér eru skinnhandrit frá miðöldum en líka yngri handrit sem fræðimaðurinn Árni Magnússon safnaði að sér með elju og ákafa allt frá unga aldri. Einnig er fjallað um bækur sem komust í safnið með öðrum hætti, t.d. merka orðabók Jóns Ólafssonar úr Grunnavík sem hann vann að alla ævi en kom aldrei út á prent, og safnhandrit með þjóðfræðiefni sem almenningur á Íslandi sendi Jóni Sigurðssyni forseta á miðri nítjándu öld. Allir lesendur sem láta sig varða sögu og menningu Íslands ættu að finna eitthvað við sitt hæfi í þessari bók.

Efnisyfirlit

 • Inngangur: Jóhanna Katrín Friðriksdóttir
 • Guðrún Nordal: Bók handa Helgu. Kaþólsk bók með hendi siðbótarmanns. AM 622 4to
 • Árni Heimir Ingólfsson: Kvæða- og tvísöngsbók frá Vestfjörðum – AM 102 8vo
 • Ásdís Egilsdóttir: Handrit handa konum – AM 431 12mo
 • Svanhildur Óskarsdóttir og Ludger Zeevaert: Við upptök Njálu: Þormóðsbók, AM 162 B fol. ∂
 • Guðrún Ása Grímsdóttir: Skjalabækur að vestan – AM 196 4to
 • Guðrún Kvaran: Orðabókarhandrit Jóns úr Grunnavík og sögulegar orðfræðirannsóknir – AM 433 fol.
 • Margrét Eggertsdóttir: Langa-Edda. Goð og gyðjur í máli og myndum – AM 738 4to
 • Már Jónsson: Jónsbókarhandrit frá 14. öld sem Árni Magnússon eignaðist ungur – AM 344 fol.
 • Sverrir Tómasson: „Bið fyrir mér dándikall“. Ærlækjarbók – AM 640 4to
 • Yelena Sesselja Helgadóttir: Alþýðleg fornfræði og Jón Sigurðsson forseti – AM 960 4to
 • Jóhanna Katrín Friðriksdóttir: Síðasta glæsta sagnahandritið – AM 152 fol.